Er það mesti fjöldi sem greinst hefur hér á landi í þrjátíu ár. Sjötíu prósent sýkinga voru hjá körlum en aukning hefur orðið í smitum á meðal ungra kvenna.
„Fólki hefur auðvitað fjölgað hér á Íslandi en þetta er alveg umfram það þannig að það er marktæk aukning á lekanda bæði hjá körlum og konum,“ segir Guðrún. Sér í lagi hjá ungu fólki og að lekandi geti haft alvarlegar afleiðingar. „Eins og ófrjósemi og valdið alvarlegum sýkingum þannig það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.“
Þá sé aukning lekanda hjá ungum konum sérstakt áhyggjuefni. Konur fái oft vægari einkenni en karlar og geti jafnvel verið einkennalausar. „Einkennin geta verið væg, eins og blöðrubólga og verið þá jafnvel misgreint og það er áhyggjuefni sérstaklega hjá konum á þessum aldri því lekandi getur smitast til barns við fæðingu og getur þá valdið sýkingu í barni og einkennum hjá þeim og jafnvel alvarlegum fylgikvillum,“ segir Guðrún en ítrekar að aukningin sé mest hjá karlmönnum.
Mikilvægt sé að fólk stundi öruggt kynlíf og noti smokk. Þá sé mikilvægt að ef fólk greinist að það klári meðferð og stundi ekki kynlíf á meðan þangað til að það er orðið einkennalaust.