Einstaklingarnir á listanum eiga það sameiginlegt að vera mótfallnir hvalveiðum og hóta því að hætta að koma hingað til lands með kvikmyndaverkefni eða taka þátt í verkefnum sem eru tekin upp hér á landi.
Leonardo DiCaprio, annálaður hvalavinur, og Jason Momoa, sem fer með hlutverk Aquamen í DC-ofurhetjuheiminum, hafa verið einna háværastir í umræðunni gegn hvalveiðunum en á listanum er nú einnig að finna samstarfskonur Jackson, Fran Walsh og Philippu Boyens, auk leikkonunnar Alfre Woodard, svo einverjir séu nefndir.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er ávörpuð beint í bréfinu og biðlað til hennar um að „vera réttu megin sögunnar“. Þá er Kristján Loftsson nefndur á nafn og sagt beinum orðum að ef hann fái að hefja hvalveiðar muni undirritaðir ekki koma hingað til lands með kvikmyndaverkefni.