Ekið var á mann á hlaupahjóli í Breiðholti en ekki er vitað að svo stöddu hvort viðkomandi hafi slasast.
Tilkynning barst einnig um fíkniefni sem fundust í háu grasi undir tré. Maður hafði verið þar á gangi með hund sinn sem þefaði fíkniefnin uppi og voru þau haldlögð af lögreglu. Þá sáu lögregluþjónar kyrrstæðan bíl í Hlíðahverfi en þar hélt maður á barni sem hafði klemmt sig illa á fingri. Var þeim ekið á slysadeild.
Í dagbók lögreglu segir einnig að einhver hafi reynt að brjótast í hús í Grafarvogi. Þar hafði verið reynt að spenna upp glugga en það tókst ekki og er málið til rannsóknar.
Lögregluþjónar voru kallaðir á skemmtistað í Hafnarfirði þar sem maður var með vandræði. Hann neitaði að segja til nafns og var að endingu kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt og vistaður í fangageymslu vegna ölvunar.
Nokkrir ökumenn voru handteknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Minnst einn þeirra hafði áður verið sviptur ökuréttindum.