Í gær var það staðfest að hinn 39 ára gamli Aaron Rodgers, sem meiddist í sínum fyrsta leik fyrir lið New York Jets, hefði slitið hásin og yrði frá út tímabilið. Í kjölfarið hefur trú veðbanka á góðu gengi Jets á yfirstandandi tímabili fjarað út en Robert Saleh, þjálfari Jets, segir of snemmt að afskrifa liðið.
„Ég veit ekki af hverju fólk hefur verið að rita minningargreinar um okkur,“ sagði Saleh við blaðamenn ytra í gegnum Zoom samskiptaforritið.

Í Rodgers hafa þeir misst sinn reynslumesta leikmann sem hefur í fjórgang verið valinn verðmætasti leikmaður NFL-deildarinnar og einu sinni orðið Super Bowl meistari.
Fjarvera hans út tímabilið, og möguleg endalok á ferli hans, hafa hrundið af stað orðrómum um það hvaða hringekja fari nú í gang hjá Jets en Saleh reyndi sitt allra besta að kveða þá niður.
Zach Wilson er nú fyrsta val Jets í leikstjórnandastöðuna en búist er við því að Jets sæki einnig reynslumeiri leikstjórnanda.

„Ég vil að það sé alveg ljóst að Zach er okkar leikstjórnandi og við höfum mikla trú á honum,“ sagði Saleh um leikstjórnandastöðu Jets. „Þetta er liðið hans Zach og við höldum tryggð við hann.“
Zach Wilson átti erfitt uppdráttar á síðasta tímabili og mun á sunnudaginn kemur byrja sinn 23 leik á NFL-ferlinum.
Rodgers þurfi að svara fyrir spurningar um framtíð sína
Robert Saleh var einnig spurður út í framtíð Aaron Rodgers en vildi lítið láta draga sig í einhverjar spekúlasjónir.
„Eins og þið getið rétt ímyndað ykkur þá er hann niðurbrotinn núna. Ég mun leyfa honum að svara þessum spurningum um framtíð hans. “

„Það er samtal sem mun þurfa að eiga sér stað á öðrum degi. Eftir allt það sem hann hefur lagt í þetta, þá er hann að sjálfsögðu vonsvikinn núna.“
Hann vill hins vegar hafa Rodgers eins nálægt Jets liðinu og hann getur.