Innlent

Sýndi skjá­skot af milli­færslum sem höfðu aldrei farið í gegn

Atli Ísleifsson skrifar
Konan hefur áður hlotið refsidóma.
Konan hefur áður hlotið refsidóma. Getty

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu í fjögurra mánaða fangelsi fyrir röð brota, meðal annars að hafa í nokkrum tilvikum fengið fólk til að afhenda sér vörur eftir samskipti á samfélagsmiðlum, og sýna þeim skjáskot af millifærslum án þess að greiðslurnar hafi raunverulega farið í gegn.

Í ákæru kemur fram að konan hafi meðal annars stolið snjallúr af heimili án þess að greiða fyrir. 

Þá hafi hún í þrígang hitt fólk, eftir samskipti á samfélagsmiðlum, og tekið við vörum og sýnt viðkomandi skjáskot af millifærslu án þess að slík millifærsla hafi raunverulega farið í gegn. Var um að ræða iPhone-sími að verðmæti 180 þúsund krónur, taska að verðmæti 12 þúsund krónur og handtaska að verðmæti 155 þúsund krónur. Brotin framdi hún á tímabilinu desember 2021 til mars 2022.

Konan var jafnframt dæmd fyrir fíkniefnaakstur og vopnalagabrot fyrir að hafa haft í vörslum sínum úðavopn.

Konan hefur áður hlotið dóma fyrir fíkniefnabrota, líkamsárásar, þjófnaðarmála og brots í nánu sambandi. Dómari mat hæfilega refsingu yfir konunni vera fjögurra mánaða fangelsi, en að fresta skuli fullnustu þriggja mánaða og sá hluti niður falla að tveimur árum liðnum, haldi hún almennt skilorð. Vísar dómari þar til þess að konan hafi nú snúið lífi sínu til betri vegar.

Konan var jafnframt dæmd til að greiða einum brotaþolanum, eiganda iPhone-símans, 180 þúsund krónur og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda og annan sakarkostnað, samtals 380 þúsund krónur. Þá skal hún svipt ökurétti í þrjú ár og úðavopn hennar gert upptækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×