Um er að ræða fyrsta stórmót liðsins undir stjórn landsliðsþjálfarans Snorra Steins Guðjónssonar. Hingað til hefur liðið leikið tvo leiki undir hans stjórn, æfingarleiki gegn Færeyjum hér heima og unnust þeir báðir.
Ísland endaði í 6.sæti á síðasta Evrópumóti, sem haldið var í Ungverjalandi og Slóvakíu árið 2022 og miðað við spár veðbanka má búast við svipaðri niðurstöðu á komandi Evrópumóti.

Veðbankarnir Unibet og Boylesports spá því báðir að Ísland, sem verður í riðli með Serbíu, Ungverjalandi og Svartfjallalandi, muni enda í 6. sæti mótsins.
Líklegast þykir að ríkjandi heimsmeistarar Danmerkur muni hrifsa til sín Evrópumeistaratitilinn af nágrönnunum frá Svíþjóð og standa uppi sem meistarar að afloknum úrslitaleik EM 2024 þann 28. janúar á næsta ári.
Svíum er spáð öðru sæti, Spánverjum þriðja, Frökkum fjórða og Þjóðverjum, sem leika á heimavelli, fimmta sæti. Nokkuð stórt bil er svo í stuðlunum frá Íslandi í 6. sæti og niður í Noreg í 7. sæti.
Skeinuhættir Ungverjar
Riðill Íslands á Evrópumótinu er spilaður í Munchen og hefur íslenska landsliðið leik gegn Serbíu þann 12. janúar. Veðbankar hafa trú á því að Serbar muni enda í níunda sæti á mótinu.
Þann 14. janúar tekur við leikur gegn Svartfellingum sem er ekki spáð sérstöku gengi á mótinu, raunar er liðið á meðal þeirra sex liða sem spáð er lakasta genginu samkvæmt veðbönkum.
Tveimur dögum síðar, nánar tiltekið þann 16. janúar munu Strákarnir okkar mæta Ungverjum sem er það lið í riðlinum, á eftir Íslandi, sem spáð er bestu gengi á mótinu. Veðbankar hafa trú á því að Ungverjar, sem enduðu í áttunda sæti á heimsmeistaramótinu í Póllandi og Svíþjóð í upphafi þessa árs, muni enda í áttunda sæti á EM í Þýskalandi.