Forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Lárus Blöndal, kynnti um valið á kjöri íþróttamanns ársins nú rétt í þessu.
Sigrún er ein sigursælasta íþróttakona Íslands frá upphafi. Hún er fædd árið 1970 og hóf að æfa sund með íþróttafélaginu Ösp í Reykjavík árið 1982.
Hæfileikar Sigrúnar komu snemma í ljós og hún var fyrst Íslendinga til að vinna til verðlauna á stórmóti í flokki þroskahamlaðra.
Hún var sunddrottning HM árið 1989 sem haldið var í Svíþjóð þar sem hún vann til fimm gullverðlauna. Á Ólympíumótinu í Madríd sem haldið var árið 1992 vann hún til níu gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna.
Sigrún var valin íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra árin 1989, 1991 og 1994 og þá var hún útnefnd besti íþróttamaður þroskaheftra í heiminum árið 1992.
Sigrún var valin íþróttamaður Reykjavíkur árið 1992 og árið 2015 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir afrek og framgöngu á vettvangi íþrótta fatlaðra.
Hún hætti keppni eftir Ólympíumót fatlaðra í Atlanta í Bandaríkjunum árið 1996.