Þetta segir Hildur í samtali við fréttastofu. Svandís greindi frá því í morgun að hún ætli að fela óháðum aðila að fara yfir stjórnsýslu og lagaumgjörð hvalveiða og ríkislögmanni að leggja mat á erindi Hvals hf. um mögulegt uppgjör vegna hvalveiðimálsins. Þetta ætli hún að gera þrátt fyrir að lögfræðilegt álit ráðuneytis segi að hún þurfi ekki að grípa til sérstakra aðgerða.
Þing kemur saman klukkan 15 í dag eftir jólahlé en þar verður lögð fram vantrauststillaga í garð Svandísar vegna hvalveiðimálsins.
„Já, nú liggja fyrir þessi endanlegu viðbrögð ráðherra sem við höfum beðið eftir í einhvern tíma. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hissa yfir þessum viðbrögðum,“ segir Hildur.
„Ég hefði haldið að ráðherra myndi svara þessu og bregðast við af meiri auðmýkt. En þetta er niðurstaða ráðherra. Hún er mér vonbrigði og ég leyfi mér að segja, fleirum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Nú setjumst við yfir þessa stöðu. Það er það sem við höfum alltaf sagt og það er það sem liggur fyrir. Það er þingflokksfundur á eftir þar sem við munum ræða þetta,“ segir Hildur.
En er ekki nokkuð ljóst að verji þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki ráðherrann falli þá er úti um ríkisstjórnina?
„Eigum við að byrja á því að fara yfir þessi viðbrögð ráðherra. Ég tel rétt að gera það. Við erum með þingflokksfund á eftir. Það er svo Grindavíkurumræða klukkan þrjú og það eru líka Grindavíkurmál á dagskrá þingflokksfundarins sem eru þrátt fyrir allt í forgangi. Nú gerum við bara allt í réttri röð. En það er alveg óhætt að segja að viðbrögð ráðherra eru mér vonbrigði.“
Þannig að þú vilt ekkert koma fram með neinar tilgátur um hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni allir greiða atkvæði á móti vantraustinu?
„Það hefur verið satt og rétt að við höfum ekki úttalað okkur um það fyrr en þessi viðbrögð lágu fyrir. Mér þykir rétt að við förum yfir það áður en við segjum eitthvað frekar. Við skulum bara gera hlutina í réttri röð. Það fer ágætlega á því að reyna að vanda sig,“ segir Hildur.