Nýtt hættumat tekur gildi í dag gildir til 22. mars að öllu óbreyttu. Matið er óbreytt á svæði 3 þar sem eldgosið er í gangi og enn talin mikil hætta þar. Hætta á svæði 1, Svartsengi, er metin töluverð en var áður mikil.
Á svæði 4, eða inni í Grindavík, er áfram metin mikil þar sem hætta vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga og hraunflæðis er talin mikil. Á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðinni) er hætta vegna gasmengunar talin mjög mikil en á öllum öðrum svæðum er nú metin töluverð hætta á gasmengun en var áður mikil.

Þessi breyting er vegna minna gasútstreymis frá eldgosinu en í upphafi. Hætta vegna gasmengunar og gjósku er einnig metin út frá veður- og dreifingarspá næstu daga sem hefur áhrif á útbreiðslu þeirra. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Veðurstofunnar.
Virkni eldgossins er enn nokkuð stöðug og eru enn opin gosop á sömu stöðum og í gær. Hraun rennur frá gígunum í suður ofan á hrauni sem rann á fyrstu dögum gossins. Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hraunjöðrum nærri Suðurstrandarvegi og Svartsengi. Jarðskjálftavirkni síðan eldgosið hófst á laugardagskvöld hefur verið minniháttar.
Í frétt Veðurstofunnar kemur einnig fram að mögulega sé nú að draga úr landrisi við Svartsengi og að það geti verið vegna þess að enn streymi kvika upp á yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni og safnast því ekki saman undir Svartsengi
„Þróun eldgossins og aflögunarmælingar næstu daga munu leiða það í ljós hvort jafnvægi komist á innstreymi kviku undir Svartsengi og hraunflæði á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni,“ segir enn fremur í frétt Veðurstofunnar.
Þar kemur enn fremur fram að veðurspáin er vaxandi suðaustanátt í dag, 13 til 20 metrar á sekúndu síðdegis, en lægir undir kvöld. Þá berst gasmengun til norðvesturs, og gæti hennar orðið vart í Reykjanesbæ og nálægum byggðarlögum.
Gasdreifingarspá má finna hér.