Körfubolti

LaMelo kærður fyrir að keyra á ungan dreng

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LaMelo Ball er sagður keyra glannalega sem og alltof hratt.
LaMelo Ball er sagður keyra glannalega sem og alltof hratt. Eric Espada/Getty Images

Móðir ungs drengs í Charlotte í Bandaríkjunum hefur kært körfuboltamanninn LaMelo LaFrance Ball, leikmann Charlotte Hornets í NBA-deildinni, fyrir að keyra yfir fótinn á syni sínum þegar Ball var að keyra frá Spectrum-höllinni, heimavelli liðsins.

Frá þessu er greint á hinum ýmsu miðlum, þar á meðal ESPN og The Athletic. Þar kemur fram að atvikið hafi átt sér stað í október á síðasta ári en nú sé búið að leggja fram kæru.

Hinn 22 ára gamli LaMelo var að yfirgefa heimavöll Hornets-liðsins eftir að taka þátt í sérstökum stuðningsmannadegi. Hann var að keyra frá leikmannainngangi vallarins þar sem stuðningsfólk beið í von um eiginhandaáritun.

Þar á meðal var Tamaria McRae og 11 ára sonur hennar, Angell Joseph. Nálguðust þau bíl LaMelo þar sem hann var stopp á umferðarljósi við innganginn. Þegar ljósið varð grænt er LaMelo sagður hafa „gefið óvænt verulega í“ með þeim afleiðingum að hann keyrði yfir fót hins 11 ára gamla Angell Joseph.

Í lögsókninni kemur fram að Angell Joseph hafi orðið fyrir alvarlegum og sársaukafullum meiðslum, á hann að hafa fótbrotnað við áreksturinn. Í lögsókninni segir einnig að Hornets þurfi að gera betur er kemur að öryggi gangandi vegfarenda við leikmannainngang Spectrum-hallarinnar.

Fjölskyldan vill fá yfir 25 þúsund Bandaríkjadali (3.475.000 íslenskar krónur) í skaðabætur frá LaMelo og Hornets. Bæði Hornets og umboðsmaður LaMelo vildu ekki tjá sig um málið.

Hornets valdi LaMelo með þriðja valrétti í nýliðavalinu 2020. Hann tók þátt í stjörnuleiknum árið 2022 og var með 24 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst að meðaltali á yfirstandandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×