West helgaði ævi sinni körfuboltastörfum. Hann var stjörnuleikmaður frá ungum aldri í mennta- og háskólaboltanum áður en hann gekk til liðs við Los Angeles Lakers. Hann fór níu sinnum í úrslitaeinvígið og lyfti titlinum einu sinni á loft á fjórtán ára ferli.

Eftir að ferlinum lauk þjálfaði hann Lakers í þrjú tímabil frá 1976–79 en færði sig svo yfir á skrifstofuna og var framkvæmdastjóri félagsins til ársins 2000.
Lakers fögnuðu ótrúlegri velgengni undir hans handleiðslu á 9. áratugnum. West átti einnig heiðurinn að því að velja Kobe Bryant í nýliðavalinu 1996 og skipulagði skipti Shaquille O‘Neal til félagsins.
Þaðan lá leiðin til Memphis þar sem West var framkvæmdastjóri árin 2002–07. Hann var í annað sinn valinn framkvæmdastjóri ársins árið 2004. Í seinni tíð hefur hann svo sinnt stjórnarstörfum hjá Golden State Warriors og Los Angeles Clippers.
Hann féll friðsamlega frá á heimili sínu í morgun.