„Þetta er fyrsta Kerlingarfjöll ULTRA hlaupið og því sérstaklega ánægjulegt að það hafi verið uppselt nánast um leið og við buðum fólki að skrá sig. Viðburður af þessu tagi hefur alla burði til þess að vera lyftistöng fyrir svæðið allt og hvetur okkur jafnframt til að hlúa að náttúrunni, aðstöðunni, og svæðinu í heild sinni,“ segir Magnús Orri Marínarson Schram, starfandi framkvæmdastjóri Kerlingarfjalla-Highland Base.

Leiðirnar lágu um líparíteldstöð
Hlaupaleiðirnar í ár voru þrjár: 12 kílómetrar, 22 kílómetrar og 63 kílómetrar. Leiðirnar lágu um 320 þúsund ára gamla líparíteldstöð.

„Ógnaröfl náttúrunnar hafa mótað Kerlingarfjöll í aldanna rás, þannig að eftir standa sundurskorin háhitasvæði, hyldjúp gljúfur, jökulflákar og stórbrotnir fjallstindar, að ógleymdri sjálfri Kerlingunni - dranganum sem fjöllin draga nafn sitt af,“ segir í tilkynningu.
Íslensk fjallahlaup að sækja í sig veðrið
Í tilkynningu segir að fjallahlaup sem reyni á úthald, aðlögunarhæfni og getu hafi verið að sækja í sig veðrið hérlendis og að umhverfi hálendisins sé kjörið fyrir hlaupara sem sækjast eftir fjölbreyttum áskorunum.
„Hálendi Íslands er einstakt og hlauparar og aðrir sem vilja njóta útivistar í ævintýralegu umhverfi lögðu leið sína í Kerlingarfjöll til þess að taka þátt eða hvetja aðra,“ segir Helga María Heiðarsdóttir, framkvæmdastjóri Útihreyfingarinnar og hlaupsins. Hún kveðst hæstánægð með helgina og áhugann á hlaupinu.

