Keely er aðeins 22 ára gömul og vann til silfurverðlauna þrjú ár í röð, á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021, EM 2022 og HM 2023. Vonbrigðin voru það mikil að ná aldrei fyrsta sæti að hún lofaði sér eftir HM í fyrra að hætta hlaupum.
„Silfurdrottningin hefur stigið upp og unnið gull, hún á það svo mikið skilið. Það voru miklar væntingar gerðar til hennar, allir bjuggust við að hún myndi vinna og hún var meðvituð um það. Ég held að nú opnist flóðgáttir og gullin streymi inn,“ sagði Paula Radcliffe, hlaupasérfræðingur BBC.

Keely er enn afar ung og hefur náð frábærum árangri síðan hún færði sig úr sundlauginni yfir á hlaupabrautina sem unglingur. Hún hefur slegið hvert ungmennametið af öðru í heimalandinu og hefur nú sannað sig sem hlaupakona í allra fremstu röð.
„Ég hef þroskast mikið undanfarin ár og þetta var árið sem ég virkilega tók næsta skref. Framtíðin er björt, ég er svo ánægð með gullið. Ekki bara fyrir mig, allt teymið í kringum mig á hlut í þessu og þau vita hver þau eru, þetta er okkar gullmedalía,“ sagði Keely.