Skoðun

Hægt að koma í veg fyrir næstum helming til­fella heila­bilunar

Guðlaugur Eyjólfsson skrifar

Á dögunum birti Lancet sem er eitt elsta og virtasta læknatímarit í heimi skýrslu nefndar sem fjallar um heilabilun. Frá stofnun nefndarinnar árið 2017 hefur nefndin metið vísbendingar um mögulega áhættuþætti heilabilunar.

Skýrslan í ár staðfestir að mögulega er hægt að draga úr áhættu á heilabilun með því að koma í veg fyrir 12 áhættuþætti yfir lífsleiðina: lágt menntunarstig, heyrnartap, háþrýstingur, reykingar, offita, þunglyndi, hreyfingarleysi, sykursýki, óhófleg áfengisneysla, höfuðáverkar, loftmengun og félagsleg einangrun.

Byggt á nýjum niðurstöðum rannsókna bætir nefndin nú tveimur áhættuþáttum við, annars vegar háu LDL kólesteróli og hins vegar ómeðhöndlaðri sjónskerðingu.

Hlutfallsleg áhrif áhættuþáttanna hafa verið reiknuð og er mögulega hægt að fækka framtíðartilfellum heilabilunar um 45% ef komið er í veg fyrir alla þessa 14 áhættuþætti.

Alzheimersamtökin á Íslandi fagna þessari uppfærðu skýrslu og hvetja alla þá aðila sem koma að stefnumótandi ákvörðunum er varða þessa áhættuþætti til þess að nýta þessar niðurstöður og bregðast við þeim, því tækifærin eru gríðarleg!

Hvernig höfum við áhrif á þessa fjórtán áhættuþætti?

1. Tryggja jafnan aðgang að góðri menntun og stuðla að vitrænni virkni á fullorðinsárum.

2. Tryggja aðgang að hjálpartækjum vegna heyrnarskerðingar og draga úr hávaðamengun.

3. Tryggja aðstoð og meðhöndlun vegna þunglyndis.

4. Hvetja til notkunar hjálma og annars búnaðar sem minnka líkur á höfuðáverkum í íþróttum og daglegu lífi.

5. Hvetja til líkamlegrar hreyfingar og skipuleggja umhverfið á þann hátt að það hvetji til hreyfingar í daglegu lífi.

6. Stunda öflugt forvarnarstarf, minnka aðgengi og fækka stöðum sem leyfa reykingar.

7. Stunda reglulegt eftirlit á blóðþrýstingi.

8. Greina og meðhöndla hátt LDL-kólesteról frá miðjum aldri.

9. Viðhalda heilbrigðri líkamsþyngd og meðhöndla offitu eins snemma og mögulegt er.

10. Minnkar líkur á áunninni sykursýki með því að huga að mataræði og hreyfingu.

11. Draga úr mikilli áfengisneyslu með verð- og aðgangsstýringu og aukinni vitund um áhættu ofneyslu.

12. Draga úr félagslegri einangrun á eldri árum með því að búa með öðrum og auðvelda þátttöku í félagsstarfi.

13. Skima fyrir og meðhöndla sjónskerðingu.

14. Draga úr loftmengun.

Hér má sjá niðurstöður skýrslunnar myndrænt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.




Skoðun

Sjá meira


×