Sport

Blóðið rann þegar hokkíkona fékk bolta í and­litið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joosje Burg liggur á vellinum eftir að hafa fengið boltann í andlitið.
Joosje Burg liggur á vellinum eftir að hafa fengið boltann í andlitið. getty/Eric Verhoeven

Gera þurfti hlé á leik Hollands og Argentínu í hokkí kvenna á Ólympíuleikunum í París eftir að leikmaður hollenska liðsins meiddist illa eftir að hafa fengið boltann í andlitið.

Joosje Burg varð fyrir því óláni að fá fast skot af stuttu færi í andlitið í leiknum í gær. Blóð rann úr höfði Burgs sem lá óvíg eftir á vellinum.

Leikmenn og sjúkrateymi hlupu til Burgs og huguðu að henni. Rúmlega fimm mínútna hlé var gert á leiknum á meðan gert var að sárum hennar. Síðan þurfti að hreinsa blóðið af vellinum.

Meiðsli Burgs voru svo ljót að Eurosport, sem sýndi leikinn beint, ákvað að sýna ekki myndir af henni liggjandi á vellinum.

Þrátt fyrir allt harkaði Burg af sér og sneri aftur á völlinn eftir að hafa skipt um treyju, þar sem hún gamla var útötuð í blóði.

Burg og stöllur hennar unnu leikinn, 3-0, og mæta Kína í úrslitaleiknum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×