Í heildina er vitað til þess að rúmlega hundrað manns hafi dáið vegna Helenu.
Í Norður-Karólínu urðu skemmdir víða í dölum sem umkringdir eru skógi vöxnum en bröttum hlíðum. Rafmagnslínur slitnuðu víða, vegir eru mikið skemmdir og vatnshreinsistöðvar óstarfhæfar.
Keppst er við að koma neyðarbirgðum eins og vatni til fólks og gera við skemmdir eins hratt og auðið er. Meðal annars hefur verið notast við þyrlur til að flytja vatn og matvæli til afskekktra byggða.

Roy Cooper, ríkisstjóri Norður-Karólínu, hefur lýst hörmungunum þar sem fordæmalausum og segir það sama um nauðsynleg viðbrögð. Í frétt New York Times er haft eftir honum og öðrum embættismönnum að um 460 þúsund manns séu enn án rafmagns og að neyðarástandi hafi verið lýst yfir í tuttugu og fimm sýslu.
Cooper sagði á blaðamannafundi í dag að hann teldi líklegt að látnum muni fjölga í vikunni, þegar björgunarmenn komast til byggða sem lokuðust af í hamförunum og flóðavatn síast í jörðina eða rennur áleiðis til sjávar.
Björgunarstörf hafa þó reynst erfið víða í ríkinu, vegna áðurnefndra skemmda. Vegna þessa hafa ráðamenn ráðlagt fólki að halda kyrru fyrir, hafi það tök á því, en rúmlega fimmtíu leitarteymi eru sögð vinna að því að koma fólki sem hefur lokast inni til aðstoðar, samkvæmt AP fréttaveitunni.
