Margt var um manninn í skólanum og þröngt setið í salnum. Nemendur voru spenntir að fá að beina spurningum að forsetanum sem á sér að sjálfsögðu langan feril að baki í alþjóðlega viðskiptalífinu sem marga nemendur skólans þyrstir að verða hluti af. Peter Møllgaard, rektor CBS, bauð Höllu velkomna og hélt stutta tölu. Þá steig Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, í ræðustól og í kjölfarið Sveinn Sölvason, framkvæmdastjóri Emblu Medical.
Þá var opnað fyrir spurningar úr sal og var Halla rukkuð um ráð til kvenleiðtoga framtíðarinnar og mikilvægi siðferðis og framtíðarhyggju í viðskiptum. Halla sagði daga þess sem hún kallaði „gamla leiðtogaháttarins“ óframsækna liðna.

Þær Ólöf Helga Þórmundsdóttir og Margrét María Marteinsdóttir tóku á móti Höllu fyrir hönd íslenskra nemenda skólans og ræddu við hana.
„Hún er áhugaverð kona og það var rosa gaman að heyra hvað hún hafði að segja um kennslu og annað. Hún vildi síðan heyra hvernig okkur leið í CBS miðað við hvernig það er heima,“ segir Ólöf.
Þær segja mikilvægt að Íslendingar geti sótt nám í Danmörku og að náið samband þjóðanna eflist. Það sé stór hópur íslenskra stúdenta við nám í Kaupmannahöfn sem styðji við bak hvert öðru.
„Maður er ekki það langt frá Íslandi og lífið verður miklu einfaldara þegar maður getur treyst á náið bakland,“ segir Ólöf.

Aðspurðar segja þær Höllu vera flottan fulltrúa Íslands.
„Það er frábært hvað hún nær að tengja við unga fólkið og sem kona í viðskiptanámi finnst mér hún flott,“ segir Ólöf.
„Hennar sýn á leiðtogafærni er rosalega áhugaverð og mér finnst gaman að fylgjast með henni,“ segir Margrét þá.