Skoðun

Ís­land fyrir­mynd í raforkuviðskiptum

Tinna Traustadóttir skrifar

Á Íslandi starfar öflugur og samkeppnishæfur iðnaður en hornsteinn hans er raforkusamningar til langs tíma. Langtímasamningar veita nauðsynlegan fyrirsjáanleika um orkuafhendingu og raforkuverð, sem er lykilatriði í harðri alþjóðlegri samkeppni. Við búum svo vel að raforkukerfið er knúið áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum og þar með algjörlega óháð jarðefnaeldsneyti. Þess vegna erum við í vari fyrir sveiflum á raforkuverði, öfugt við þau kerfi þar sem t.d. verðbreytingar á gasi hafa bein áhrif.

Samkeppnishæfni iðnaðar í Evrópu hefur farið þverrandi undanfarin ár og er áhyggjuefni, enda er öflugur iðnaður mikilvæg undirstaða hagsældar og velmegunar. Á dögunum skilaði Mario Draghi, hagfræðingur og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, skýrslu til Evrópusambandsins um samkeppnishæfni ESB til framtíðar – „The Future of European Competitiveness“. Í skýrslunni er greining á stöðunni og tillögur að úrbótum.

Á meginlandinu hefur hækkandi raforkuverð og miklar verðsveiflur á raforkumörkuðum komið niður á iðnaði. Þannig voru t.d. 38 álver í Evrópu um aldamótin en eru nú 22. Fleiri dæmi væri hægt að taka úr iðnaði þar sem framleiðsla hefur verið skert eða henni hætt. Í skýrslu Mario Draghi er mikil áhersla lögð á langtímasamninga um raforku í stað skammtímaviðskipta á markaði, því slíkir samningar auki fyrirsjáanleika í rekstri og takmarki hættuna á ófyrirséðum verðsveiflum. Í stuttu máli: langtímasamningar efla samkeppnishæfni álfunnar.

Þróun í þessa átt er þegar hafin. Á árinu 2023 var samið um 40% meira orkumagn í langtímasamningum en árið 2022 og allt stefnir í að árið 2024 verði metár.

Varin fyrir verðsveiflum

Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu þurftu almenningur og fyrirtæki í Evrópu að kljást við hækkandi og sveiflukennt raforkuverð. Ríkisstjórnir veittu háum fjárhæðum í stuðning til þess að stemma stigu við vandanum sem skapaðist vegna þessa. Það geisaði orkukrísa á meginlandi Evrópu. Á sama tíma hélst raforkuverð á Íslandi hins vegar hagstætt og stöðugt. Ástæðan er sú að við erum með 100% endurnýjanlegt raforkukerfi, sem er óháð jarðefnaeldsneyti og við gerum raforkusamninga mánuði og ár fram í tímann.

Í skýrslu Mario Draghi er sérstaklega fjallað um verðvernd fyrir neytendur. Þar, rétt eins og í iðnaði, er áherslan líka á lengri samninga til að tryggja fyrirsjáanleika og vernda almenning fyrir verðsveiflum til skemmri tíma.

Íslenska módelið skapar fyrirsjáanleika

Kjarninn í stefnu Evrópusambandsins hvað varðar samkeppnishæfni iðnaðar og vernd almennings fyrir óhóflegum raforkuverðshækkunum og -sveiflum er íslenska módelið sem byggir á fyrirsjáanleika. Skipan raforkumála hér á landi hefur tryggt að hér fái öflugur iðnaður þrifist og að almenningur búi við stöðugleika og hagkvæmni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Sjá meira


×