Þetta segir í yfirlýsingu frá Arkitektafélagi Íslands í ljósi mikillar umræðu um stærðarinnar vöruhús við Álfabakka 2 sem spratt upp við hlið fjölbýlishúss í Breiðholti. Vöruhúsið er um ellefu þúsund fermetrar og skyggir á útsýni íbúa. Arkitektafélagið ítrekar að vöruhúsið hafi ekki verið hannað af arkitekt.
Krefst næmni og skilnings að hanna inn í umhverfi
Að sögn félagsins má draga þann lærdóm af málinu að það er ekki sama hvernig heimildir í deiliskipulagi eru nýttar.
„Þótt eitthvað megi gera samkvæmt deiliskipulagi þýðir það ekki að það eigi að gera það. Að hanna inn í umhverfi krefst næmni og skilnings á því hvernig byggja á borg, næmni og skilnings sem arkitektar hafa fengið menntun og þjálfun til að gera.“
Að þeirra mati sé það hlutverk allra aðila sem koma að hönnun borgarumhverfisins að setja íbúa í forgang. Mikilvægt sé að hugsa verkefnin út frá þörfum þeirra og samfélagsins í heild sinni.
„Þannig græðum við öll“
Vöruhúsið sé dæmi um augljóst mikilvægi þess að vera með skilyrði um hvernig sé staðið að þessu í skipulags- og byggingarreglugerð.
„Að í reglugerðum sé fjallað sérstaklega um gæða arkitektúr, birtuskilyrði í íbúðum, sólarstundir á dvalarsvæðum og rými milli húsa í blandaðri byggð svo fátt eitt sé nefnt.“
Félagið ítrekar þá að löggjafinn, borgin og sveitarfélög ásamt skipulags- og byggingaryfirvöldum beri ábyrgð á því að móta rammana sem borgarumhverfið er hannað eftir.
„Hönnuðir bera ábyrgð á að hanna borgarumhverfi til framtíðar með gæði og velferð að leiðarljósi fyrir bæði íbúa og samfélag. Þannig græðum við öll.“