Sport

Þakið ætlaði að rifna af Ally Pally eftir níu pílna leik Heta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Damon Heta gengur inn í salinn í Alexandra höllinni í London.
Damon Heta gengur inn í salinn í Alexandra höllinni í London. getty/James Fearn

Damon Heta náði svokölluðum níu pílna leik í viðureign sinni gegn Luke Woodhouse í 3. umferð á heimsmeistaramótinu í pílukasti í dag.

Heta náði níu pílna leiknum í þriðja legg í öðru setti viðureignarinnar gegn Woodhouse. Í fyrstu tveimur heimsóknum sínum henti hann í 180. Í þriðju heimsókninni tók hann svo út 141.

Þakið ætlaði hreinlega að rifna af Alexandra höllinni þegar níunda og síðasta píla Hetas endaði í tvöföldum tólf.

Ástralinn fagnaði sem óður maður en Woodhouse var ekki síður glaður og samfagnaði kollega sínum eins og sjá má á myndbandinu af níu pílna leiknum hér fyrir neðan.

Klippa: Ótrúlegur níu pílna leikur

Þetta er annar níu pílna leikurinn á HM. Hollendingurinn Christian Kist náði því einnig í viðureign sinni gegn Madars Razma í 1. umferð. Hann tapaði reyndar viðureigninni.

Keppendur sem ná níu pílna leik á HM fá sextíu þúsund pund, eða rúmlega tíu og hálfa milljón íslenskra króna. Sama upphæð fer til góðgerðasamtaka og eins heppins áhorfanda í Ally Pally.

Viðureign Heta og Woodhouse stendur nú yfir. Staðan er 1-1 eftir tvö sett. Fylgjast má með leiknum í beinni útsendingu á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×