Sport

Yfir hundrað gallaðir verðlaunapeningar frá ÓL í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bretinn Noah Williams vann bronsverðlaun í dýfingum á Ólympíuleikunum í París. Hann var ánægður með verðlaunapeninginn þá.
Bretinn Noah Williams vann bronsverðlaun í dýfingum á Ólympíuleikunum í París. Hann var ánægður með verðlaunapeninginn þá. Getty/Clive Rose

Aðeins sex mánuðir eru liðnir frá því að Frakkar héldu Ólympíuleikana í París en yfir hundrað manns hafa þegar skilað verðlaunum sínum frá leikunum. Það var heldur ekki af ástæðulausu.

Ástæðan er lélegt ástand verðlaunapeninganna sem hafa hreinlega eyðilagst á þessum stuttum tíma. Þeir hafa ryðgað, aflitast og flagnað.

Það sást strax í ágúst að verðlaunapeningarnir voru fljótir að breyta um lit og það á meðan leikarnir voru enn í gangi.

Ameríski hjólabrettakappinn Nyjah Huston sýndi þá myndir af flagnandi verðlaunapeningi sínum aðeins nokkrum dögum eftir afhendingu.

Franska blaðið La Lettre segir frá því að yfir hundrað íþróttamenn og konur hafi nú skilað verðlaunapeningum sínum vegna ósættis með ástand þeirra.

AlþjóðaÓlympíunefndin, IOC, hefur einnig staðfest þessar fréttir.

„Við erum að vinna náið með frönsku myntsláttunni og fyrirtækinu sem bar ábyrgðina á framleiðslu verðlaunapeninganna og gæðaprófuninni á þeim. Verðlaunapeningum sem eru skemmdir, verður skipt út fyrir nýja samskonar verðlaunapeninga,“ sagði í yfirlýsingu Alþjóðaólympíunefndarinnar í frétt Insidethegames.

Í frétt La Lettre kemur fram að þetta sé í framhaldi af því að notkun ákveðinna efna var bönnuð við framleiðsluna. Fyrir vikið voru framleiðendurnir að prófa sig áfram með ný efni sem duga greinilega mjög illa.

Þar kemur líka fram að það eru aðallega bronsverðlaunapeningarnir sem eru að skemmast. Gull- og silfurpeningarnir standa sig miklu betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×