Fótbolti

Fjár­magnaði leikmannakaup Wimbledon með tölvu­leikja­spilun

Siggeir Ævarsson skrifar
Bandaríski rithöfundurinn John Green er einlægur aðdáandi Wimbledon
Bandaríski rithöfundurinn John Green er einlægur aðdáandi Wimbledon Twitter@AFCWimbledon

Félagaskipti í ensku D-deildinni rata ekki oft í íslenska fjölmiðla, nema kannski þegar íslenskir leikmenn eiga í hlut, en sagan á bakvið hvernig Marcus Browne varð leikmaður Wimbledon er lyginni líkust og vert að greina frá henni nánar.

Einn stærsti aðdáandi liðsins er bandaríski rithöfundurinn John Green en eins og hann segir sjálfur þá hefur hann verið ástfanginn af liðinu árum saman og hefur síðustu tólf ár verið með auglýsingu aftan á stuttbuxum liðsins. 

Undanfarna mánuði hefur Green verið að streyma tölvuleikjaspilun sinni þar sem hann spilar FIFA og spilar að sjálfsögðu sem Wimbledon. Um 1.100 manna samfélag hefur myndast í kringum rásina og ákvað Green að tekjurnar sem kæmu inn í gegnum hana myndu renna til Wimbledon.

Nú hefur draumur hans ræst. Miðjumaðurinn Marcus Browne, sem er uppalinn í unglingaakademíu West Ham og lék síðast með Oxford United, hefur gengið til liðs við Wimbledon og það er innkoman af streymisrás Green sem borgar bróðurpartinn af launum hans.

Browne lék sinn fyrsta leik fyrir Wimbledon í gær þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-0 sigri liðsins á Tranmere en Wimbledon er í 4. sæti deildarinnar og í hörku baráttu um að komast upp um deild.

Þess má til gamans geta að Green heimsótti Ísland árið 2008 og gaf Bæjarins Beztu fimm stjörnur af fimm mögulegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×