Erlent

Hvað gengur Trump til með tollum?

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Ben Curtis

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur beitt Kanada, Mexíkó og Kína umfangsmiklum tollum síðustu daga og segir tolla gegn Evrópu væntanlega. Viðbrögð markaða hafa að mestu verið á einn veg, þar sem flest ljós loga rauð í kauphöllum heimsins.

Síðast þegar Trump var í Hvíta húsinu beitti hann tollum gegn ríkjum eins og Kanada, Mexíkó, Japan og öðrum. Þá voru tollarnir notaðir til að gera nýja samninga um viðskipti ríkjanna á milli en Trump hafði sagt þá samninga sem giltu fyrir vera ósanngjarna.

Nú hefur hann brotið gegn þeim samningum sem hann skrifaði undir, í tilfellum Kanada og Mexíkó, og beitt ríkin tollum á nýjan leik. Að þessu sinni eru tollarnir þó umfangsmeiri og hafa yfirvöld í Mexíkó og Kanada svarað fyrir sig með eigin tollum.

Sjá einnig: Hyggst hækka tolla á Evrópuríkin innan tíðar

Hvað Trump ætlar sér með þessum tollum er þó ekki ljóst og virðist hann sjá tolla fyrir sér sem fjölnota tól.

Hann virðist bæði ætla að nota þá sem pólitískt tól til að ná fram vilja sínum gegn öðrum ríkjum og á sama tíma talar hann eins og tollar séu komnir til að vera og eigi jafnvel að koma í stað tekjuskatts, eða í það minnsta notaðir til lækkunar skatta.

Tollar í stað skatta?

Í grein Wall Street Journal segir að margir fjárfestar á Wall Street, embættismenn Í Washington DC og þjóðarleiðtogar annarra ríkja hafi ekki trúað því að Trump myndi leggja svo umfangsmikla tolla á Kanada og Mexíkó. Þeir hafi ekki séð hvað Bandaríkin gætu mögulega grætt á því, efnahagslega eða pólitískt séð.

Þar segir einnig að framtíðin sé mjög óljós, því erfitt sé að sjá fyrir hvað Trump ætlar sér. Hann hafi til að mynda sagt að tollunum sé ætlað að stöðva flæði fíkniefna og flótta- og farandfólks en Howard Lutnick, væntanlegur viðskiptaráðherra Trumps, hafi sagt í síðustu viku að yfirvöld í Kanada og Mexíkó væru þegar byrjuð að grípa til aðgerða.

Blaðamenn og ritstjórn WSJ hafa gagnrýnt tolla Trumps en hann fór svo hörðum orðum um Wall Street Journal, vogunarsjóði og alla sem hafa verið mótfallnir tollum í færslu á samfélagsmiðli sínum í gærkvöldi. Sagði hann að eina ástæðan fyrir þessum mótbærum væri að viðkomandi væri stýrt frá Kína „eða öðrum erlendum eða innlendum félögum“.

Trump sagði að allir sem elskuðu Bandaríkin væru hlynntir tollum og að það hefði aldrei átt að leggja þá til hliðar í staðinn fyrir tekjuskatt árið 1913.

Trump um tolla og Wall Street Journal.

Trump hefur ítrekað talað fyrir því að tollar gætu komið í stað tekjuskatts og hefur hann til að mynda lagt til að stofna nýja stofnun sem safna eigi tekjum af tollum og að þessar tekjur myndu koma frá öðrum ríkjum. Þannig væri hægt að hætta að „skattleggja okkar borgara til að gera önnur ríki auðug,“ eins og Trump orðaði það í janúar.

Slík stofnun er að vísu til og tekjurnar af tollum eru borgaðar af Bandaríkjamönnum, ekki öðrum ríkjum.

Vill auka innlenda framleiðslu

Trump hefur einnig gefið til kynna að hann vilji nota tolla til að breyta neysluvenjum Bandaríkjamanna og fá fólk til að kaupa frekar vörur sem framleiddar eru í Bandaríkjunum. Sérfræðingar hafa sagt að það muni leiða til verðhækkana og hafa ætlanir hans verið harðlega gagnrýndar, af Wall Street Journal og öðrum.

WSJ birti til að mynda ritstjórnargrein um helgina þar sem miðillinn kallaði viðskiptastríð Trumps við helstu bandamenn og viðskiptafélaga Bandaríkjanna „heimskulegasta viðskiptastríð sögunnar“.

Fyrr í gær hafði hann einnig birt færslu þar sem hann gagnrýndi WSJ og aðra andstæðinga tolla. Þar hélt hann því fram að ríki eins og Kanada, Mexíkó og Kína hefðu farið ránshendi um Bandaríkin um árabil og valdið þar glæpum og fíkniefnaneyslu.

Trump sagði að Bandaríkin „heimskt land“ áfram.

„FRAMLEIÐIÐ VÖRUR YKKAR Í BANDARÍKJUNUM OG ÞÁ ERU ENGIR TOLLAR!“ skrifaði forseti Bandaríkjanna. Lýsti hann því fyrir að gullöld Bandaríkjanna væri væntanleg en fyrst myndu Bandaríkjamenn mögulega þurfa að þjást.

Trump segir gullöld í vændum en fyrst þurfi Bandaríkjamenn mögulega að þjást.

Kanada eigi að verða ríki

Svo virðist sem Trump hafi einnig hugmyndir um að nota tolla til að þvinga Kanada til einhverskonar samruna við Bandaríkin. Hann hefur ítrekað lýst því yfir að Kanada eigi að verða eitt ríki Bandaríkjanna.

Trump hefur haldið því fram að Bandaríkin „niðurgreiddu“ Kanada að ástæðulausu. Bandaríkjamenn hefðu enga þörf fyrir neitt sem Kanada hefði upp á að bjóða. Án þessarar niðurgreiðslu gæti Kanada ekki virkað sem sjálfstætt ríki.

„Þess vegna ætti Kanada að verða ástkært 51. ríkið. Mun lægri skattar og mun betri hernaðarvernd fyrir Kanadamenn. OG ENGIR TOLLAR!“ skrifaði Trump.

Trump segir Bandaríkin „niðurgreiða“ Kanada.

Kanadamenn sárir en svara fyrir sig

Kanadamenn hafa svarað fyrir sig en yfirvöld þar birtu um helgina lista yfir 1.256 vörur frá Bandaríkjunum sem verða beitt tollum. Tollarnir eru nokkuð miðaðir og hafa meðal annars verið settir á appelsínur frá Flórída, heimilistæki frá Ohio og Suður-Karólínu og mótorhjól frá Pennsylvanínu.

Ráðamenn í Kanada segja tollunum ætlað að ýta undir þrýsting á Repúblikana svo þeir þrýsti á Trump til að láta af tollunum.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur einnig heitið því að leggja 25 prósenta toll á fleiri vörur frá Bandaríkjunum sem taka eiga gildi á morgun.

Kanadamenn óttast þó umfangsmikil og mjög slæm áhrif frá tollum Bandaríkjanna og gætu þó fundist fljótt, eins og fram kemur í samantekt Ríkisútvarps Kanada, CBC. Sérstaklega er búist við áhrifum á bílaiðnað í Kanada og olíusölu og er búist við því að verð neysluvara muni hækka fljótt.

Hér að neðan má sjá myndband frá hokkíleik í Ottawa í Kanada í gær, þar sem áhorfendur púuðu þegar þjóðsöngur Bandaríkjanna var spilaður.

Þegar kemur að bílaiðnaði eru Bandaríkin, Kanada og Mexíkó mjög samofin. Bílar sem framleiddir eru í Bandaríkjunum eru smíðaðir með fjölmörgum vörum og íhlutum frá Kanada og Mexíkó. Sérfræðingar telja að bílaverð muni rjúka upp í Norður-Ameríku vegna tollanna.

Meira en annað telja Kanadamenn sig svikna af nánum vinum sínum eins og margir viðmælendur fjölmiðla vestanhafs hafa lýst yfir. Ráðamenn í nokkrum fylkjum Kanada hafa brugðist við með því að skipa forsvarsmönnum ríkisreknum áfengissölum að fjarlægja bandarískt áfengi úr hillum verslana.

Kanadamenn eru heilt yfir að kalla eftir því að íbúar forðist það að kaupa vörur frá Bandaríkjunum.

Tvíeggja sverð

Auk þess að svo virðist sem að Trump vilji nota tolla til að þvinga Kanadamenn og Mexíkóa til aðgerða, hvort sem það er að stöðva flæði farandfólks eða ganga innn í Bandaríkin er einnig talið mögulegt að Trump gæti viljað nota tolla til að þvinga Dani til að láta Grænland af hendi.

Til lengri tíma má búast við því að bæði vinir og óvinir Bandaríkjanna leiti leiða til að aftengja hagkerfi sín Bandaríkjunum. Ráðamenn í Kanada eru þegar byrjaðir að tala um það að hætta að líta til suðurs og líta þess í stað til vesturs (Kína) og austurs (Evrópu) eftir viðskiptatækifærum.

Fyrst munu tollarnir þó hafa mikil og slæm áhrif í Kanada og í Mexíkó, ef þeir verða ekki felldir niður, þar sem hagkerfi ríkjanna eru mjög háð hagkerfi Bandaríkjanna á marga vegu. Þá hefur hagvöxtur þar verið minni en í Bandaríkjunum, sem veldur því að þau ríki hafa minna svigrúm til að takast á við afleiðingarnar.

Sérfræðingar sem ræddu við blaðamenn New York Times segja að þó ráðamenn í Peking sjái töluverða ógn af tollum Trumps, þar sem Kínverjar selja mikið af vörum til Bandaríkjanna, sjái þeir einnig mikil tækifæri.

Kínverjar hafa lengi sakað Bandaríkjamenn um að nota áhrif sín á heimsvísu til að reyna að halda aftur af Kína. Vegna þessa hafa Kínverjar lengi reynt að reka fleyga milli Bandaríkjanna og bandalagsríkja þeirra, eins og Japan, Ástralíu og ríkja Evrópu.

Nú er Trump sjálfur að berja hamri sínum á þessa fleyga en einn sérfræðingur í málefnum Asíu sagði umfang þess ímyndarskaða og hversu hratt dregið hefði úr áhrifum Bandaríkjamanna og trausti á þá, hefði komið ráðamönnum í Peking á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×