Körfubolti

Enn sami Siggi Ingi­mundar og áður: „Og bara rúm­lega það“

Aron Guðmundsson skrifar
Sigurður Ingimundarsson er mættur aftur í þjálfun og tekin við bæði karla- og kvennaliði Keflavíkur
Sigurður Ingimundarsson er mættur aftur í þjálfun og tekin við bæði karla- og kvennaliði Keflavíkur Vísir/Einar

Marg­faldi Ís­lands- og bikar­meistarinn í körfu­bolta, Sigurður Ingi­mundar­son, segist enn vera sami þjálfarinn og rúm­lega það frá því að hann var síðast í starfi árið 2016. Honum rann blóðið til skyldunnar þegar að kallið kom frá félaginu hans, Kefla­vík á dögunum. 

Nú er Sigurður orðinn þjálfari bæði kvenna- og karla­liðs félagsins sem hafa bæði verið í brasi. Það var fyrr á tíma­bilinu sem Sigurður var fenginn inn til að taka við kvenna­liði Kefla­víkur og hefur það nú unnið alla þrjá leiki sína undir hans stjórn. Mætt í topp­baráttu og framundan stórslagur gegn toppliði Hauka um komandi helgi.

Í síðustu viku var Sigurður síðan ráðinn þjálfari karla­liðs Kefla­víkur út tíma­bilið. Liðið er í basli í 10.sæti deildarinnar og á hættu á að komast ekki í úr­slita­keppni. Sigurður mun því stýra báðum liðum út yfir­standandi tíma­bil hið minnsta. Fyrsta þjálfara­starfið síðan árið 2016 en Sigurður hefur engu gleymt.

„Ég trúi ekki að það sé svona langt síðan en það hlýtur að vera,“ Segir Sigurður. „Ég var aldrei hættur í al­vöru og hef stundum verið ansi nálægt því að koma til baka en ein­hvern veginn ekki fundið það rétta þar til núna. Óvænt.“

Og það rétta er náttúru­lega bara félagið þitt. Kefla­vík.

„Það er ástæðan fyrir því að ég kom til baka.“

Fyrsta skipti stressaður á ævinni

Er þetta enn sami gamli körfu­boltinn og þegar að þú varst síðast að þjálfa árið 2016? Eða hefurðu þurft að breyta þinni nálgun í þjálfun?

„Það eru náttúru­lega alls konar skoðanir á því hvort að körfu­boltinn sé mikið breyttur eða ekki. Ég held að menn ráði því hvað þeim finnst um það. Þegar að ég er að þjálfa vil ég bara ákveðinn körfu­bolta. Hann verður spilaður hjá mér.“

En hvernig var fyrir þig að mæta aftur inn í þetta um­hverfi? Inn á æfingar og í leiki eftir nokkur ár frá boltanum.

„Ef ég á að vera alveg heiðar­legur þá leist mér ekkert rosa­lega vel á þetta og var svona næstum því, í fyrsta skipti á ævinni, stressaður. En frá fyrstu æfingu var eins og ég hefði aldrei farið. Þetta er ótrú­lega skrítið. Bara kom strax.

Þannig að þú upp­lifðir bara sömu gömlu til­finningarnar?

„Já og fyrir mér er körfu­bolti alltaf bara körfu­bolti.“

Keflavíkurhrokinn á undanhaldi?

Keflvísk lið Sigurðar hafa jafnan verið sigursæl en það er ekki síður Kefla­víkur­hrokinn sem hefur ein­kennt þau lið, hroki sem hefur dofnað yfir ein­hvern tíma núna.

„Sumir kalla þetta Kefla­víkur­hroka en ég er sammála þeim sem ræða það og segja sum ein­kenni sem hafa verið hér síðustu mjög mörg ár og ein­kennt Kefla­víkur lið, bæði karla og kvenna, hafi dofnað. Eitt af hlut­verkum okkar er að koma þeim aftur svolítið sterkar inn, hægt og ró­lega.“

Hér hafa menn yfir­leitt spilað fyrir félagið sitt og gert það af eins miklum krafti og þeir geta og því fylgir eitt og annað sem við værum til í að sjá meira af.“

Sami maður og rúmlega það

Tæpur ára­tugur frá hringiðu körfu­boltans í þjálfara­starfinu og í Gazinu. Körfu­bolta­hlað­varpi í um­sjón fyrr­verandi læri­sveina Sigurðar í lands­liðinu, þeirra Pa­vels Er­molinskij og Helga Más Magnús­sonar var því velt upp hvort það væri of langur tími liðinn frá því að Sigurður Ingi­mundar hefði verið sá Sigurður Ingi­mundar sem þeir þekktu, sá sem sparkaði upp hurðinni og keyrði menn í gang.

„Pa­vel og Helgi eru skemmti­legir og miklir snillingar. En hvort ég sé sami maður. Já og bara rúm­lega það. Það er bara þannig.“

„Er bara í manni, fer aldrei“

En gæti hann haldið áfram í starfi fram yfir yfir­standandi tíma­bil?

„Maður á aldrei að segja aldrei en pælingin er ekki þannig í dag. Við reynum bara að fara eins langt og við getum á þessu tíma­bili, svo verður staðan tekin. En mér finnst ógeðs­lega gaman og geggjað að vera kominn aftur í þetta. Ég er spenntur og kátur. Það er eitt­hvað.“

Hvað er það við körfu­boltann sem dregur þig að?

„Ég veit það ekki. Þetta er bara í manni. Fer aldrei. Ég er viss um að margir sem eru búnir að sitja lengi hjá og ekki enn farnir að taka þátt. Það er eitt­hvað sem kallar í þá. Við eigum örugg­lega eftir að sjá fleiri koma til baka.“

Ég skynja hjá þér að þjálfarinn í þér, löngunin að fara meir í þjálfun er enn til staðar?

„Það er til staðar og hefur aldrei farið. Jafn­vel er ég bara verri ef eitt­hvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×