Upp­gjör: Höttur-Stjarnan 83-86 | Stjarnan marði sigur á Hetti

Gunnar Gunnarsson skrifar
stjarnan jón gautur
vísir/Jón Gautur

Stjarnan heldur áfram í toppbaráttu úrvalsdeildar karla í körfuknattleik eftir 86-89 sigur á Hetti á Egilsstöðum í kvöld. Leikurinn snérist gestunum í vil undir lokin. Hattarliðið á aðeins tölfræðilega möguleika eftir á að halda sér í deildinni.

Leikurinn var jafn allan tímann sem sést að eftir þrjá leikhluta af fjórum var munurinn eitt stig. Fimmtán sinnum var jafnt í leiknum og tuttugu sinnum skiptust liðin á forustu.

Stjarnan leiddi 17-18 eftir fyrsta leikhluta en í hálfleik var Höttur yfir 47-46. Liðið náði því með góðum endaspretti, komst yfir með 7-2 kafla.

Höttur leiddi í þriðja leikhluta lengst af. Stjörnumenn voru nokkuð mistækir í sóknarleiknum í kvöld, brenndu af nokkrum dauðafærum eins og gerist, en misstu líka boltann frá sér. Hattarmenn stálu líka boltanum alls 12 sinnum í leiknum.

Stjarnan snýr leiknum

Höttur var kominn í óvenju mikla forustu, 64-59, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, gerði þá ferfalda skiptingu sem virkaði því Stjarnan skoraði sex stig í röð á stuttum tíma. Höttur tók leikhlé á móti og skoraði síðustu körfuna þannig liðið var 66-65 yfir fyrir fjórða leikhluta.

Þar byrjuðu Hattarmenn og virtust gera sig líklega til að landa sínum fyrsta sigri á almanaksárinu, voru 74-65 yfir þegar þrjár mínútur voru búnar, sem var mesti munur í leiknum. Þá hrökk Stjörnuliðið í gang, átti nokkrar góðar sóknir þar sem Ægir Þór Steinarsson splundraði Hattarvörninni með góðum sendingum og náði að þröngva Hetti í erfið skot sem fóru ekki ofan í.

Lokafæri Hattar

Höttur fékk sín færi á lokasekúndunum. Liðið náði boltanum eftir að seinna vítaskot Matej Karlovic geigaði þegar um 20 sekúndur voru eftir og hefði því getað haldið boltanum og leitað að færi því forskot Stjörnunnar var eitt stig. Gustav Suhr-Jessen fékk ágætis þriggja stiga færi úr vinstra horninu og lét vaða en hitti ekki þegar 15 sekúndur voru eftir.

Stjarnan náði boltanum og Hattarmenn brutu með 11 sekúndur eftir af klukkunni. Shaquille Rombley setti bæði skotin ofan í. Höttur hafði því tækifæri á að jafna en tókst ekki að skapa almennilegt þriggja stiga skot til að jafna.

Hvað gekk vel?

Heilt yfir gekk leikur Hattar vel, en það vantaði herslumuninn. Stigaskorið dreifðist vel og leikmenn, sem ekki hafa átt góða leiki í vetur, lögðu sitt í leikinn. Boltinn gekk oft hratt í sókninni og vörnin var fín. Með slíkri frammistöðu hefði Höttur unnið flest lið deildarinnar. En svo sýndi Stjarnan styrk sinn í lokin.

Hvað gekk illa?

Það vantaði ákefð í leik Stjörnunnar frá byrjun. Þeir hleyptu Hattarmönnum tiltölulega auðveldlega á körfuna og voru síðan frekar mislagðar hendur í sókninni. En þetta slapp fyrir horn.

Hverjir stóðu upp úr?

Hilmar Smári Hermannsson var stigahæstur Stjörnumanna með 24 stig. Hattarmönnum gekk mjög illa að stöðva hann. Jase Febres skoraði 20. Matej Karlovic skoraði 18 stig fyrir Hött á 18 mínútum fyrir Hött. Það munar miklu fyrir liðið að hafa mann með. Justin Roberts skoraði 17.

Hvað þýða úrslitin?

Stjarnan og Tindastóll fylgjast áfram að í efsta sætinu, bæði lið unnu í kvöld. Höttur á aðeins tölfræðilega möguleika á að bjarga sér. Þegar fjórir leikir eru eftir er liðið átta stigum frá Keflavík, Þór Þorlákshöfn og síðan ÍR og KR sem leika á morgun.

Baldur Þór Ragnarsson er þjálfari Stjörnunnar.vísir / jón gautur

Baldur Ragnarsson: Alls ekki góðir í 35 mínútur

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, var þakklátur fyrir 86-89 sigur á Hetti á Egilsstöðum í kvöld því hans lið var komið í erfiða stöðu.

Höttur var með níu stiga forskot eftir þrjár mínútur í fjórða leikhluta, sem var mesti munur í leiknum. Því náði Stjarnan að snúa sér í vil með frábærum endaspretti.

„Ég er ánægður með mína menn að sýna andlegan síðustu fimm mínúturnar og keppa af krafti. Áður leit staðan ekki vel út og okkar leikur í 35 mínútur var ekki góðar, við vorum ofan í einhverri holu. Það kom aldrei sjálfstraust í leik okkar, hvorki í vörn né sókn.

Þetta einkenndist af orkuleysi og að vera fyrir aftan í öllum stöðum auk þess að senda á Hattarliðið. En að gerði líka vel, hittu úr góðum skotum og skoruðu mikið af tveggja stiga körfum á okkur í fyrri hálfleik.“

Aðspurður um hvort það hefði haft áhrif á hugarfar Stjörnunnar að koma inn í leik gegn öðru af botnliðinu, verandi á toppnum, sagði Baldur:

„Þetta er margslungin íþrótt og stundum lendir maður í þessum holum. Oftast endar það í tapi, sjaldnast snýst þetta við eins og í kvöld. En ég er ánægður með strákana að hafa gert það.“

Með sigrinum er Stjarnan áfram jöfn Tindastóli á toppi deildarinnar. „Hver leikur skiptir miklu máli. En auðvitað er maður pirraður að við mætum ekki klárari en þetta í leikinn. En svona er íþróttin.“

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.vísir/Hulda Margrét

Viðar Örn Hafsteinsson: Við ætlum okkur að skrifa söguna

Kraftaverk þarf til að Höttur bjargi sér frá falli úr úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir úrslit kvöldsins. Höttur tapaði 86-89 á heimavelli fyrir Stjörnunni. Liðið sýndi ágætan leik og var komið í ágæta stöðu í fjórða leikhluta þegar Stjarnan hrökk í gang. Þjálfari Hattar var þó heilt yfir sáttur við leik síns liðs.

„Ég er ánægður með frammistöðuna og stoltur af því hvernig við spiluðum þótt það dygði okkur ekki gegn góðu Stjörnuliðið.

Okkur vantaði þetta smá sjálfstraust og þor til að klára þetta. En Stjarnan er mjög gott lið. Þegar við vorum komnir með forskot undir lokin fundu þeir leiðir og refsuðu okkur vel meðan við hittum ekki þótt við fengjum oft góðar sóknir.“

Höttur og Haukar eru í fallsætunum með átta stig en næstu lið fyrir ofan eru með 16. Fjórar umferðir eru eftir sem þýðir að eitthvert liðanna fyrir ofan verður að tapa öllum sínum leikjum sem eftir er og Höttur að vinna sína til að sleppa við fall.

„Fyrir kvöldið í kvöld voru fimm leikir eftir. Við ætluðum að koma með frammistöðu og hrista upp í þessu. Ég veit ekki hvort fjórir sigrar duga til að bjarga okkur frá falli en ég sé von þegar frammistaðan er svona.

Þannig við ætlum okkur að halda áfram að skrifa söguna. Það kemur nýr kafli í henni, sama hvort hann er skemmtilegur eða leiðinlegur. Líkurnar eru ekki með okkur en við gefa þessu séns og halda áfram á fullu gasi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira