Fótbolti

Ótrú­leg markasúpa í Kata­lóníu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gestirnir jöfnuðu í blálokin.
Gestirnir jöfnuðu í blálokin. David Ramos/Getty Images

Barcelona og Atlético Madríd gerðu 4-4 jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum spænska bikarsins í knattspyrnu. Leikurinn var orðabókaskilgreining á kaflaskiptum leik.

Gestirnir frá Madríd voru 2-0 yfir eftir að eins sex mínútna leik. Julián Álvarez með fyrra markið og Antoine Griezmann það síðara, eftir undirbúning Álvarez.

Heimamenn hafa hins vegar verið á góðu skriði undanfarið og jöfnuðu metin á næsta stundarfjórðungi leiksins. Pedri minnkaði muninn á 19. mínútu og tveimur mínútum síðar jafnaði miðvörðurinn ungi Pau Cubarsí metin. Staðan var svo orðin 3-2 Barcelonaí vil áður en fyrri hálfleik lauk þökk sé marki Iñigo Martínez.

Þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka bætti varamaðurinn Robert Lewandowski við fjórða marki heimamanna sem virtust ætla að vera í góðum málum fyrir síðari leik liðanna. Gestirnir eru hins vegar ekki þekktir fyrir að gefast upp og Marcos Llorente minnkaði muninn á 84. mínútu.

Þegar þrjár mínútur voru svo komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Alexander Sørloth metin í 4-4 og þar við sat. Reyndust það lokatölur í hreint út sagt mögnuðum leik.

Síðari leikur liðanna fer fram þann 2. apríl næstkomandi en þar kemur í ljós hvort liðið kemst í úrslit gegn annað hvort Real Madríd eða Real Sociedad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×