Körfubolti

Rosa­leg troðsla í NBA: „Greyið sem var undir honum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má voru tilþrif Shaedons Sharpe mjög tilkomumikil.
Eins og sjá má voru tilþrif Shaedons Sharpe mjög tilkomumikil. ap/Jess Rapfogel

Ein svakalegasta troðsla tímabilsins í NBA-deildinni í körfubolta leit dagsins ljós í leik Washington Wizards og Portland Trail Blazers í gær. Shaedon Sharpe, leikmaður Portland, tróð þá af miklu afli yfir Justin Champagnie, leikmann Washington.

„Ég byrjaði bara að hlæja: Vá, maður. Greyið sem var undir honum. Þetta var frekar ótrúlegt,“ sagði Chauncey Billups, þjálfari Portland, um troðslu Sharpes.

Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af 2. leikhluta komst Sharpe inn í sendingu Champagnies. Hann dripplaði boltanum einu sinni og tókst svo á loft og tróð yfir Champagnie með látum. Sharpe var nánast láréttur í loftinu þegar hann tróð og lenti nokkuð harkalega á gólfinu eftir troðsluna tilkomumiklu sem má sjá hér fyrir neðan.

„Ég sá að gaurinn var fyrir svo ég stökk bara upp og reyndi að troða. Og hann fór inn,“ sagði Sharpe hinn hógværasti um troðsluna sem hefur vakið mikla athygli.

Sharpe gerði meira en bara að troða yfir aumingja Champagnie því hann skoraði 36 stig sem er persónulegt met hjá honum. Hann tók einnig átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Portland hafði betur í leiknum, 121-129, og hefur nú unnið þrjá leiki í röð. Liðið er í 12. sæti Vesturdeildarinnar með 26 sigra og 33 töp.

Í vetur er Sharpe með 16,9 stig, 3,7 fráköst og 2,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Portland valdi Sharpe með sjöunda valrétti í nýliðavalinu 2022.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×