Enski boltinn

Eche­verri má loks spila fyrir Man City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mættur til Manchester.
Mættur til Manchester. Manchester City

Argentíski táningurinn Claudio Echeverri má nú spila fyrir enska knattspyrnuliðið Manchester City sem festi kaup á honum fyrir rúmu ári. Síðan þá hefur hann verið á láni hjá River Plate í heimalandinu.

Seint árið 2023 var greint frá því að Man City væri á höttunum á eftir þessum unga og efnilega miðjumanni. Það var svo í janúar 2024 sem þá- og núverandi Englandsmeistarar keyptu Echeverri á tólf og hálfa milljón punda eða rúmlega tvo milljarða íslenskra króna á núverandi gengi.

Man City ákvað í kjölfarið að lána leikmanninn, sem er 19 ára gamall í dag, aftur til River Plate og þar hefur hann verið síðustu tólf mánuði síðan.

Eftir frábæra frammistöðu í Suður-Ameríkukeppni landsliða skipuðum leikmönnum 20 ára og yngri er miðjumaðurinn loks orðinn löglegur með Man City.

„Ég get ekki lýst því hversu spenntur ég er yfir því að vera mættur til Manchester og geta loks kallað mig leikmann Manchester City. Líf mitt hefur ávallt snúist um fótbolta og draumur minn hefur alltaf verið að spila fyrir eitt besta lið Evrópu.“

Hans fyrsti leikur gæti komið um næstu helgi þegar Man City mætir Plymouth Argyle í ensku bikarkeppninni. Leikurinn er sýndur beint á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×