Hinn 19 ára gamli Benóný Breki gekk í raðir Stockport eftir frábært tímabil með KR á síðustu leiktíð. Hann kom við sögu í bikarleik gegn Crystal Palace en hafði annars aðeins spilað 22 mínútur í deildinni þegar kom að leik dagsins.
Framherjinn efnilegi hóf leik á bekknum en var sendur inn í hálfleik eftir að Ashley Fletcher, fyrrverandi leikmaður Manchester United, West Ham United, Middlesbrough, Watford og New York Red Bulls, hafði komið gestunum yfir.
Það tók Benóný Breka aðeins tvær mínútur að jafna metin. Hann skoraði svo sigurmarkið þegar tæpar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Lokatölur 2-1 Stockport í vil sem er nú með 57 stig í 5. sæti að loknum 33 leikjum.
Edgeley Park has a new hero, and his name is Benoný Breki Andrésson 😍#StockportCounty pic.twitter.com/Jos07L0N93
— Stockport County (@StockportCounty) March 1, 2025
Efstu tvö lið C-deildarinnar fara beint upp í B-deildina á meðan liðin í 3. til 6. sæti fara í umspil um sæti í B-deild.
Í Grikklandi skoraði Hjörtur Hermannsson eina mark Volos þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Aris í efstu deildinni þar í landi. Mark Hjartar kom á 71. mínútu eftir að gestirnir höfðu komist yfir.
Volos er með 22 stig í 12. sæti af 14 liðum eftir 25 leiki. Aðeins einn leikur er eftir af hefðbundinni deildarkeppni. Þá fara liðin í 9. til 14. sæti í umspil um hvaða lið falla úr deildinni.