Skoðun

Ingi­björg Gunnars­dóttir - Rektor með fram­tíðar­sýn fyrir Háskola Ís­lands

Ármann Höskuldsson skrifar

Ingibjörg Gunnarsdóttir hefur skipað sér í fremstu röð íslenskra fræðimanna á sviði næringarfræði og heilsu. Sem prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og aðstoðarrektor vísinda og samfélags hefur hún haft veruleg áhrif á þróun og stefnu næringarfræðirannsókna á Íslandi. Hennar faglega nálgun, metnaður og frumkvæði hafa gert hana að einum af lykilpersónum í þessari fræðigrein og háskólasamfélaginu.

Rannsóknir Ingibjargar hafa m.a. beinst að mikilvægi næringar fyrir almenna heilsu, áhrifum fæðuvenja á sjúkdóma og næringarstöðu íslensks almennings. Hún hefur leitt ráðgjafar- og rannsóknaverkefi sem hafa haft bein áhrif á stefnumótun í heilsueflingu, hvort sem er í tengslum við almenningsheilsu eða stefnu stjórnvalda um næringu og mataræði.

Sem aðstoðarrektor vísinda og samfélags hefur Ingibjörg gegnt lykilhlutverki við að efla rannsóknir, vísindamiðlun og samvinnu milli fræðigreina innan Háskóla Íslands og utan. Hún hefur lagt mikla áherslu á að styrkja vísindalega þekkingu innan Háskóla Íslands og tryggja að íslenskar rannsóknir standist alþjóðlegan samanburð. Einnig hefur hún verið ötul í að miðla niðurstöðum sínum til almennings með fjölbreyttum hætti, meðal annars í fjölmiðlum og gegnum faglegar ráðstefnur.

Árið 2023 hlaut Ingibjörg titilinn Heiðursvísindamaður Landspítala, sem er viðurkenning á framúrskarandi vísindastörfum hennar og áhrifum á íslenskt heilbrigðiskerfi og undirstrikar mikilvægi rannsókna hennar í íslensku samfélagi.

Með sterka framtíðarsýn fyrir íslenskt vísinda- og háskólasamfélag er Ingibjörg Gunnarsdóttir hæfur leiðtogi og fræðimaður til að stýra Háskóla Íslands. Hún hefur sýnt fram á skýra stefnu í vísindum og menntamálum, ásamt því að hafa hæfileika til að leiða stórar stofnanir með öflugri stjórnunarhæfni og þekkingu að leiðarljósi.

Ingibjörg Gunnarsdóttir er ekki aðeins frábær fræðimaður heldur einnig áhrifamikill leiðtogi í íslensku vísindasamfélagi. Hún hefur unnið að nýjungum í rannsóknum á sviði næringarfræði og heilbrigðisvísinda, auk þess sem hún hefur markað sér spor í akademískri stjórnun. Hún er ómetanleg fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir vísindamanna, kennara og nemenda, því treysti ég henni til að leiða Háskóla Íslands sem Rektor hvar hún mun áfram stuðla að framförum fyrir íslenskt samfélag.

Höfundur er eldfjallafræðingur og rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×