Sport

Tveir níu pílna leikir á sama kvöldinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rob Cross og Luke Humphries náðu báðir níu pílna leik á fimmta keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar í pílukasti.
Rob Cross og Luke Humphries náðu báðir níu pílna leik á fimmta keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar í pílukasti. getty/Zac Goodwin

Svokallaðir níu pílna leikir sjást ekki oft en að tveir slíkir komi á sama kvöldinu er afar sjaldgæft. En það gerðist á fimmta keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar í pílu í gær.

Heimsmeistarinn Luke Littler stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa unnið Nathan Aspinall í úrslitaleiknum, 6-3. Rob Cross og Luke Humphries stálu hins vegar senunni með tveimur níu pílna leikjum.

Til glöggvunar þá er níu pílna leikur það þegar keppendur taka út 501, upphafstöluna í hverjum legg, með aðeins níu pílum.

Í viðureigninni gegn Cross í átta manna úrslitunum náði Humphries níu pílna leik. Hann tapaði þó viðureigninni, 6-4. Þetta var fyrsti níu pílna leikurinn í úrvalsdeildinni í vetur.

Í undanúrslitunum mætti Cross Aspinall og náði þá sjálfur níu pílna leik. Hann tapaði þó viðureigninni, 6-5. Níu pílna leikina má sjá hér fyrir neðan.

Cross og Humphries fengu báðir gullpílur frá styrktaraðila úrvalsdeildarinnar, BetMGM, fyrir að ná níu pílna leikjunum. Gullpílurnar eru metnar á þrjátíu þúsund pund, eða 5,3 milljónir íslenskra króna.

Eftir fyrstu fimm keppniskvöldin er Humphries efstur í úrvalsdeildinni með fimmtán stig. Littler kemur þar á eftir með þrettán stig.

Næsta keppniskvöld verður í Nottingham á fimmtudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×