Körfubolti

Ljúft líf hjá Luka, LeBron og Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og Luka Doncic skoruðu samtals 63 stig gegn New York Knicks.
LeBron James og Luka Doncic skoruðu samtals 63 stig gegn New York Knicks. ap/Jae C. Hong

Flest gengur Los Angeles Lakers í hag eftir að Luka Doncic gekk í raðir liðsins. Í nótt vann Lakers áttunda sigurinn í röð þegar New York Knicks kom í heimsókn. Lokatölur 113-109, Lakers í vil.

Doncic og LeBron James voru báðir atkvæðamiklir í leiknum í nótt. Doncic skoraði 32 stig, tók sjö fráköst og gaf tólf stoðsendingar. LeBron var með 31 stig, tólf fráköst og átta stoðsendingar.

Lakers lenti tíu stigum undir þegar tæpar sjö mínútur voru eftir af 4. leikhluta, 90-80, en vann forskot Knicks upp og knúði fram framlengingu.

Þar skoraði Doncic fimm stig og LeBron kláraði svo leikinn með því að skora síðustu fjögur stig Lakers af vítalínunni. Heimamenn unnu á endanum fjögurra stiga sigur, 113-109.

Lakers hefur nú unnið átta af tíu leikjum sem Doncic hefur spilað með liðinu. Lakers er í 2. sæti Vesturdeildarinnar með fjörutíu sigra og 21 tap. Oklahoma City Thunder er á toppnum með 51 sigur og ellefu töp.

Jalen Brunson skoraði 39 stig og gaf tíu stoðsendingar fyrir Knicks. OG Anunoby skoraði tuttugu stig og Josh Hart átján auk þess að taka tíu fráköst.

Knicks, sem hefur tapað tveimur leikjum í röð, er í 3. sæti Austurdeildarinnar með fjörutíu sigra og 22 töp. Liðið er með fimmta besta árangurinn í NBA en hefur tapað öllum níu leikjunum gegn liðunum fjórum sem eru með betri árangur en það (Cleveland Cavaliers, Oklahoma, Boston Celtics og Lakers).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×