Skoðun

Flosa í for­manninn

Jónas Már Torfason skrifar

Um þessar mundir fer fram kosning til formanns VR. Þar er í framboði maður sem undirritaður ber ómælda virðingu fyrir. Flosi Eiríksson hefur verið dyggur þjónn í þágu lands og þjóðar í áratugi. Flosi er örlátur á tíma sinn og krafta, og hefur unnið ötullega fyrir hagsmunum okkar í bæjarstjórn, innan íþróttahreyfingarinnar og innan verkalýðshreyfingarinnar, sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Flosi hefur lagt áherslu á að sameina verkalýðshreyfinguna um það sem skiptir máli. Það er nóg komið af deilum innan hreyfingarinnar um mál sem snertir venjulegt fólk lítið sem ekkert, deilur sem snúast fyrst og fremst um persónur innan veggja VR en ekki um hagsmuni vinnandi fólks. Það hefur veikt hreyfinguna, og þar með kaup okkar og kjör. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við sammála um aðalatriðin og það eru aðalatriðin sem ættu að skipta máli.

Flosi er sameiningaraflið sem VR nauðsynlega þarf, sem stendur utan karpandi fylkinga, og getur beint kröftum félagsins í skynsamlega verkalýðsbaráttu sem snýst um efnahagsleg kjör félagsmanna. Einhverjir kynnu að segja að „skynsamleg“ verkalýðsbarátta feli í sér veika verkalýðsbaráttu en hér fer því fjarri. Flosi er maður sem setur fram ýtrustu kröfur, er með bein í nefinu, og stendur í lappirnar. Hann gerir það þó án þess að missa sjónar á markmiðinu og án þess að láta koma sér úr jafnvægi.

Flosi er með heitt hjarta en kaldan haus — fersk innkoma sem mun hjálpa hreyfingunni að endurheimta fókus á það sem skiptir máli: að vinna af samheldni fyrir bættum kjörum og réttindum í þágu félagsmanna. Þess vegna styð ég Flosa í formanninn og þess vegna ættir þú að gera það líka.

Höfundur er lögfræðingur búsettur í Danmörku og fyrrum félagsmaður í VR til margra ára.




Skoðun

Sjá meira


×