Crystal Palace lagði Millwall 3-1 þegar liðin mættust í 5. umferð ensku bikarkeppninnar. Úrslitin ein og sér vöktu svo sem ekki mikla athygli en skelfileg tækling Roberts gerði það hins vegar.
Markvörðurinn var rekinn af velli og á endanum dæmdur í sex leikja bann. Mateta var hins vegar sendur á sjúkrahús þar sem sauma þurfti 25 spor í höfuð hans.
Mateta sjálfur gerði sér ekki grein fyrir á vellinum hversu slæmt sár hans væri og reyndi að sannfæra lækni Palace-liðsins um að leyfa sér að klára leikinn.
„Ég vildi bara þrífa blóðið og halda áfram. Ég reyndi að sannfæra lækninn í hálfa mínútu. Hann gat hins vegar séð sárið en ekki ég. Eyrað hékk nærri af en ég fann þó ekki fyrir því,“ sagði Mateta í viðtalinu við Sky Sports. Mateta sagði jafnframt að Roberts hefði beðist afsökunar og að hann hefði fyrirgefið markverðinum.
Hinn 27 ára gamli Mateta hefur skorað 12 deildarmörk á leiktíðinni og vonast til að snúa aftur á völlinn sem fyrst.