Skoðun

Börn, for­eldrar og starfs­fólk Hjallastefnunnar í Reykja­vík kalla eftir á­kvörðun á fimmtu­dag!

Kristín Kolbrún Waage Kolbeinsdóttir skrifar

Kæra borgarstjórn,

Í síðustu viku hófst áræðnilota í Hjallastefnunni. Áræðnilotan er síðasta lotan af sex í okkar kynjanámskrá. Þá reynir á áræðni, kjark og framkvæmdargleði. Í þeirri lotu hvetjum við börnin til þess að taka frumkvæði, standa fyrir máli sínu og hafa áhrif á umhverfið sitt. Þau æfa sig í að stíga út fyrir þægindarrammann, finna kjarkinn sinn og takast á við ýmsan ótta með hvatningu frá kennurum og samnemendum.

Öll höfum við gott af smá áræðni og hvet ég ykkur kæra borgarstjórn til þess að sýna áræðni í aðgerðum þegar kemur að húsnæðismálum Hjallastefnunnar. Það er ekki nóg að fjalla opinberlega um mikilvægi þess að skapa aðstæður sem styðja við velferð barna og fjölskyldna sem og að ætla að búa kennurum betri aðstæður. Það þarf að grípa til aðgerða sem tryggja að þau markmið náist.

Jafnvel þótt hluti ykkar sé pólitískt ekki hrifið af sjálfstætt starfandi skólum þá er fjöldinn allur af reykvískum borgurum sem velur Hjallastefnuna og enn fleiri sem bíða á biðlista til þess að komast að. Eins og fram kemur í opnu bréfi til borgarstjórnar frá foreldrafélögum skólans og leikskólans þá eiga þessi reykvísku börn “meira skilið en skammtímahúsnæði og loftkennd loforð um að bætt verði úr málum fljótlega”.

Það sama gildir um allt það frábæra starfsfólk sem þarna starfar. Það starfsfólk gerir ráð fyrir uppsagnarbréfi í lok mars mánaðar ef langtímalausn verður ekki samþykkt á borgarráðsfundi næstkomandi fimmtudag.

Ég skora því á ykkur kæru vinkonur og vinir í Ráðhúsinu að afgreiða beiðni okkar á fundinum. Gefa okkur skýr svör, því hingað til hafa samstarfsyfirlýsingar og viljayfirlýsingar ekki staðist. Við höfum ekki tíma til þess að bíða. Börn, foreldrar og starfsfólk Hjallastefnunnar þola ekki meiri tafir. Við krefjumst þess að húsnæðismálin verði tekin fyrir strax, með ákveðnum og skýrum aðgerðum til að tryggja framtíð Hjallastefnunnar í Reykjavík.

Höfundur er umsjónarkennari og foreldri í Barnaskólanum í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Lestu Gaza

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir skrifar

Sjá meira


×