Fótbolti

Depay stóð á boltanum og slóst áður en hann lyfti titlinum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Memphis Depay varð deildarmeistari á sínu fyrsta tímabili í Brasilíu.
Memphis Depay varð deildarmeistari á sínu fyrsta tímabili í Brasilíu. EPA-EFE/ISAAC FONTANA

Memphis Depay efndi til slagsmála með því að standa á boltanum, rétt áður en hann varð deildarmeistari með Corinthians í Brasilíu.

Corinthians var 1-0 yfir eftir fyrri leikinn um titilinn og komið var fram að nítugustu mínútu í seinni leiknum þegar Depay ákvað, í stað þess að skýla boltanum bara, að standa aðeins á honum og stæra sig.

Tveir leikmenn Corinthians réðust að honum og augnabliki síðar höfðu brotist út heljarinnar slagsmál eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.

Leikurinn hafði verið mjög dramatískur fram að þessu, þjálfari og miðjumaður Corinthians fengu báðir rautt spjald og sóknarmaður Palmeiras klúðraði víti sem hefði jafnað stöðuna í einvíginu.

Nokkrum mínútum síðar þegar menn höfðu róað sig niður hélt leikurinn áfram og Corinthians hélt út 1-0 sigur. Liðið varð þar með deildarmeistari í fyrsta sinn síðan 2019 en alls var þetta 31. deildarmeistaratitillinn, sem er met.

Depay fylgdi í fótspor goðsagna eins og Jaap Stam og Ruud van Nistelrooy sem komu til Manchester United frá PSV, en náði aldrei sömu hæðum. John Peters/Man Utd via Getty Images

Þetta var fimmti titillinn á ferli Depay, sem gekk til liðs við Corinthians frá Atlético Madrid í fyrra en varð síðast deildarmeistari með Barcelona tímabilið 2022-23. Þar áður hafði hann leikið fyrir Lyon og Manchester United, sem keypti hann fyrir mikið fé frá uppeldisfélaginu PSV Eindhoven.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×