Kvikmyndaskólinn er enn að berjast fyrir lífi sínu og stóðu starfsmenn í þeirri meiningu að komið væri fram ágæt áætlun til að halda honum á floti. En þá kom babb í bátinn og vilja starfsmenn nú meina að Guðmundur Ingi Kristinsson barna- og menntamálaráðherra standi í vegi fyrir að skólanum verði bjargað. Rúnar Guðbrandsson, sem er fagstjóri leiklistardeildar, sem er eitt af fjórum sviðum skólans, segir málið kannski ekki alveg svo einfalt.
Verður að höggva á hnútinn núna
„Í stuttu máli er sagan sú að rekstrarfélagið, sem rekur eða ráku öllu heldur, skólann, varð gjaldþrota. Þetta kom mjög í bakið okkar starfsmönnum sem erum hér að streitast í víngarði drottins, við erum bara að sinna nemendum. Og nú er runnin upp algjör ögurstund, við erum úti í miðri á en erum bjargarlaus,“ segir Rúnar.

Hann segir málið afar flókið en það verði einfaldlega að bjarga skólanum núna, nemendur eru úti um allar koppagrundir að gera lokaverkefni sín. Þetta er spurning um einn og hálfan mánuð. Síðan megi ræða hvað gera eigi við skólann. En nú sé runnin upp ögurstund.
„Við höfum ekki fengið greidd laun í tvo mánuði. Við létum okkur hafa það, áður höfðu verið rekstrarörðugleikar og farið að hitna í kolum, en það var ekki fyrr en um miðjan mars að við fáum þau tíðindi að þetta sé gjaldþrota.“
Starfsmenn og nemendur komnir að þolmörkum
Að sögn Rúnars er erfitt að meta hversu margir starfsmenn skólans eru, mikið er um verktaka en fastráðnir séu um fjörutíu manns.
Rúnar segir ótal flækjustig og erfið. Þá vilji leiðinleg saga skólans setja strik í reikninginn og flækjast fyrir. En hann segir að þau hér og nú og það verði að bregðast við.
„Við erum komin að þolmörkum. Það verður að höggva á þennan hnút og boltinn er hjá Guðmundi Inga.“
Rúnar hefur fulla samúð með ráðherra, hann sé nýkominn til starfa en engu að síður verði hann að láta til sín taka í málinu. Málefni skólans hafa verið eins og heit kartafla milli ráðuneyta, en nú liggi fyrir að hann sitji uppi með hana.
„Það var eitthvert klúður með samninga í haust, það var fyrirliggjandi samningur við ríkið og einhvern veginn fór það í skrúfuna. Okkur höfðu verið eyrnamerktir peningar en sá samningur sem átti að dekka kostnað þessarar annar. En sá samningur fór í skrúfuna. Ráðherra getur klárað þessa önn með reisn og svo má ræða þetta. Það getur enginn annar en við klárað þessa önn, krakkarnir búnir að borga skólagjöld.“
Að sögn Rúnars eru að jafnað 120 nemendur við skólann en þeir séu óvenju fáir núna einfaldlega vegna þess að á síðasta ári tók einn ráðherra sig til og svipti nemendur við skólann rétti til námslána.
„Þá varð hrun. Aldrei verið eins fáir. Þeir eru ekki nema eitthvað 60 núna. Fólk hefur ekki efni á að stunda skólann án námslána.“
Nolan á leiðinni
En það breytir ekki þeirri staðreynd að um tuttugu manns eru að fará að útskrifast og eru úti um allar koppagrundir að taka sínar lokamyndir. Engin spurning sé um það, það verði að klára málið, það fari í endalausa hringi en alltaf sé einhvern veginn verið að gefa fólki von.

„Það hafa stigið fram mjög öflugir aðilar sem hafa áhuga á að þróa þetta áfram, klára þessa önn en það gerist ekki nema hægt sé að finna peninga til að greiða launin. Það þarf bara að gefa „og“ á þetta. Svo er hægt að ræða í framhaldinu hvað verður um skólann. Þar eru allskonar hugmyndir uppi og starfsmenn til í flest en ómögulegt sé ef öll sú reynsla og þekking sem hefur safnast innan skólans fari beint út um gluggann.“
Rúnar bendir á að nú sé ofurleikstjórinn Christofer Nolan á leið til landsins og hann vanti 400 manns í það verkefni sem hann er með á döfinni. Hann vanti fólk sem kunni til verka á setti og þar komi skólinn sterkur inn. Það verði að finnast á þessu lausn og það strax. Það verði að höggva á þennan hnút núna, og svo megi velta því fyrir sér hvað verði um skólann.