Körfubolti

Mar­tröðin full­komnuð fyrir Ma­vericks

Sindri Sverrisson skrifar
Anthony Davis er farinn í sumarfrí eftir tapið í nótt.
Anthony Davis er farinn í sumarfrí eftir tapið í nótt. Getty/Justin Ford

Stuðningsmenn Dallas Mavericks virðast hreinlega fegnir að leiktíð liðsins hafi lokið í NBA-deildinni í nótt og sumir ætla núna að styðja við Luka Doncic með LA Lakers í úrslitakeppninni.

Þetta segir staðarmiðillinn The Dallas Morning News um viðbrögð stuðningsmanna við 120-106 tapinu gegm Memphis Grizzlies í nótt, í umspili um sæti í úrslitakeppninni. „Langri martröð okkar er lokið. Versta tímabil Mavericks frá upphafi,“ skrifar einn. „Rekið Nico, skiptið öllum út, seljið liðið,“ skrifar annar en Nico Harrison gæti varla verið óvinsælli eftir ákvörðunina um að skipta Luka Doncic út í vetur. Ákvörðun sem enginn virðist botna í og verður seint fyrirgefin.

Anthony Davis, sem kom til Dallas frá Lakers þegar Doncic var skipt út, skoraði 40 stig og tók níu fráköst í leiknum í nótt. Hann átti samt erfitt með að spila í seinni hálfleik, vegna meiðsla í nára og baki, og hætti að spila þegar rúmar fimm mínútur voru eftir enda voru úrslitin þá ráðin.

Ja Morant skoraði 22 stig fyrir Memphis, tók sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar auk þess að stela boltanum þrisvar, þrátt fyrir ökklameiðsli sín. Jaren Jackson Jr. skoraði 24 stig og Desmond Bane 22 stig.

Memphis mun nú mæta Oklahoma City Thunder í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Miami Heat tryggði sér sæti í úrslitakeppni austurdeildarinnar með því að vinna Atlanta Hawks, 123-114.

Heat mun því mæta Cleveland Cavaliers, toppliði austurdeildarinnar, í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Þar með er allt klárt fyrir úrslitakeppnina sem hefst í dag með tveimur einvígum í austurdeildinni og tveimur í vesturdeildinni.

Þetta eru einvígin í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.Twitter/Bleacher Report
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×