Körfubolti

„Get ekki sagt að þetta hafi verið auð­velt“

Siggeir Ævarsson skrifar
Lore Devos var frábær í kvöld á báðum endum vallarins
Lore Devos var frábær í kvöld á báðum endum vallarins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Lore Devos var frábær í liði Hauka í kvöld þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitaviðureign Bónus-deildar kvenna með 79-64 sigri á Val. Devos skoraði 32 stig og stal sex boltum og var hreinlega óstöðvandi á löngum köflum.

Hún vildi þó ekki meina að stigin 32 hafi komið auðveldlega, Valur hafi spilað góða vörn en hún þakkaði liðsfélögum sínum fyrir hvernig hún spilaði í kvöld.

„Ég get ekki sagt að þetta hafi verið auðvelt. Valskonur létu mig hafa fyrir þessu en liðsfélagar mínir voru duglegar að láta boltann ganga og fundu mig á réttum stöðum.“

Það hefði mögulega verið auðvelt að mæta værukær í leikinn í kvöld í stöðunni 2-0 en Devos sagði að það hefði aldrei komið til greina.

„Við vissum alveg eftir síðasta leik sem var mjög jafn í lokin að þær myndu mæta í kvöld með mikla orku og baráttu sem þær gerðu. Sem betur fer náðum við að þétta raðirnar eftir því sem leið á og sóttum sigurinn.“

Haukar mæta annað hvort Keflavík eða Njarðvík í úrslitum en Devos sagðist ekki eiga neina draumaandstæðinga í úrslitum.

„Nei, í rauninni ekki. Ég vona bara að besta liðið vinni og við mætum svo því liði og spilum okkar leik og höldum áfram að berjast.“

Það er laugardagskvöld og sennilega freistandi fyrir Hauka að fagna en Devos sagði að það yrði lítið um fagnarlæti í bili, enda björninn ekki unninn enn.

„Alls ekki. Við munum halda einbeitingu. Hugsa vel um okkur og safna kröftum. Við megum auðvitað fagna því að vera á leið í úrslit en við verðum áfram með fókus á næsta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×