Man. City tapaði mjög ó­vænt stigum á móti botnliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, svekkir sig á hliðarlínunni í Southampton í dag.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, svekkir sig á hliðarlínunni í Southampton í dag. Getty/Michael Steele

Manchester City tapaði dýrmætum stigum í dag í baráttunni um Meistaradeildarsætin þegar liðið gerði markalaust á útivelli á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta var aðeins tólfa stig Southampton á leiktíðinni en með því sleppa þeir við það að jafna met Derby yfir fæst stig á einu tímabili í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester City var sjötíu prósent með boltann og reyndi 26 skot í leiknum en gekk illa að skapa sér alvöru færi.

Heimamenn börðust fyrir öllum boltum dyggilega studdir af ástríðufullum stuðningsmönnum sínum. Þetta eru án efa bestu úrslit liðsins á annars hræðilegu tímabili.

City er í þriðja sæti með 65 stig en Newcastle og Chelsea eru tveimur stigum á eftir og eiga leik inni.

Everton vann 3-1 útisigur á Fulham í London þrátt fyrir að lenda undir snemma leiks. Með þessum sigri þá komst Everton upp í þrettán sæti deildarinnar.

Raul Jiménez kom Fulham í 1-0 á sautjándu mínútu með skalla eftir sendingu frá Emile Smith Rowe og þannig var staðan þar til í uppbótatíma fyrri hálfleik þegar Vitaliy Mykolenko jafnaði metin eftir sendingu frá Abdoulaye Doucouré.

Michael Keane skallaði síðan boltann í markið á 70. mínútu eftir sendingu Dwight McNeil og fjórum mínútum síðar var Beto búinn að koma Everton tveimur mörkum yfir.

Brentford og Brighton unnu bæði og eru því áfram jöfn með 55 stig í áttunda og níunda sæti deildarinnar, fimm stigum frá sjöunda sætinu sem gefur sæti í Sambandsdeildinni.

Brighton & Hove Albion vann 2-0 útisigur á Wolves og endaði með því sex leikja sigurgöngu Úlfanna.

Mark var dæmt af Brighton um miðjan fyrri hálfleik en Danny Welbeck kom liðinu í 1-0 með marki úr vítaspyrnu á 28. mínútu. Brajan Gruda kom Brighton síðan í 2-0 fimm mínútum fyrir leikslok.

Brentford vann 1-0 útisigur á Ipswich Town. Kevin Schade skallaði boltann í mark Ipswich á 18. mínútu eftir sendingu frá Bryan Mbeumo. Það reyndist vera eina mark leiksins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira