Skoðun

Yfir­gnæfandi meiri­hluti vill þjóðar­at­kvæði

Jón Steindór Valdimarsson skrifar

Í dag er Evrópudagurinn. Til hamingju með hann.

Fróðlegt er að skoða niðurstöður könnunar Gallups um afstöðu þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarumsóknar og hvort ganga skuli í Evrópusambandið.

Í könnun Gallups á stuðningi við þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið kemur í ljós að 72% landsmanna eru fylgjandi því að þjóðin greiði atkvæði en 17,6% eru á móti. Ef aðeins er lítið á þá sem afstöðu tóku eru 80% þjóðarinnar fylgjandi slíkri atkvæðagreiðslu.

Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að þjóðin greiði atkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið?

Hér á eftir verður aðeins horft til þeirra sem tóku afstöðu. Í ljós kemur að um 75% karla eru fylgjandi því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu og 87% kvenna. Mikill meirihluti í öllum aldurshópum styður atkvæðagreiðslu. Mestu er stuðningurinn hjá fólki á aldrinum 40 til 49 ára, en minnstur hjá þeim sem eru yfir sjötugt eða 71%.

Á landsbyggðinni vill 78% slíka þjóðaratkvæðagreiðslu en 81-83% í höfðuðborginni og nágrenni.

Ekki er martækur eftir menntun eða tekjum, en mikill eftir stjórnmálaskoðunum. Hjá Viðreisn, Pírötum og Samfylkingu eru nær allir sem afstöðu tóku fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða 97-99%. Um 92% stuðningur er við atkvæðagreiðsluna hjá Flokki fólksins. Hjá Miðflokki skiptast stuðningsmenn í jafnar fylkingar, en hjá Sjálfstæðismönnum er stuðningurinn minnstur eða 41% þeirra sem taka afstöðu og 59% þeirra á móti þjóðaratkvæðagreiðslu.

Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Niðurstöður eru þær að 43,0% landsmanna eru fylgjandi aðild og 38,6%% eru á móti. Ef aðeins er lítið á þá sem afstöðu tóku eru 55% þjóðarinnar fylgjandi aðild. Hér á eftir er aðeins litið á þá sem afstöðu tóku.

Fleiri karlar en konur lýsa yfir skoðun á aðild, en þegar aðeins er litið á þá sem afstöðu tóku er ekki munur á kynjunum. Meirihluti í aldurshópum til 59 ára styður aðild eða um 60%, en lítill munur er hjá þeim sem eru á sjötugsaldri. Hjá þeim sem eru yfir sjötugt eru 56% á móti.

Á landsbyggðinni er mest andstaða eða 55% á móti en 45% með. Á höfuðborgarsvæðinu eru aftur á móti rétt um 60% þeirra sem afstöðu tóku fylgjandi aðild.

Hjá þeim sem eru með háskólapróf er mestur stuðningur við aðild eða um 60% en um 50% hjá fólki með framhaldsskólapróf og 53% hjá þeim sem hafa grunnskólapróf.

Nær allir tekjuhópar eru fylgjandi aðild og almennt fer stuðningur vaxandi með hærri tekjum, nema hjá þeim sem eru með yfir tvær milljónir í fjölskyldutekjur á mánuði, en þar er stuðningurinn þó 56%.

Mestur er stuðningurinn hjá Samfylkingu eða 92% þeirra sem afstöðu tóku, 86% hjá Viðreisn og 81% hjá Pírötum. Hjá VG og Flokki fólksins er stuðningurinn um 60%, en miklu minni hjá stjórnarandstöðunni. Hjá Miðflokki eru 84% á móti aðild, hjá Sjálfstæðismönnum 85% þeirra sem taka afstöðu og 89% Framsóknarmanna.

Nánar um könnun Gallups. Þetta var netkönnun. Úrtak var 1.714 manns af landinu öllu, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallups, 823 svöruðu. Könnunin var gerð 27. mars – 8. apríl.

Ekki eftir neinu að bíða

Engum blöðum er um það að fletta að vilji þjóðarinnar stendur til þess að fá að taka afstöðu til næstu skrefa í Evrópumálum. Engin ástæða er til þess að fresta því að hefja undirbúning slíkrar atkvæðagreiðslu og að hún fari fram á næstunni.

Evrópudagurinn er tilvalinn til þess, fyrir þá sem vilja framvindu í þessum málum, að ganga til liðs við Evrópuhreyfinguna og skrá sig á þessari slóð: www.evropa.is.

Höfundur er formaður Evrópuhreyfingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×