Upp­gjörið: Haukar - Njarð­vík 92-91 | Haukar Ís­lands­meistarar 2025

Siggeir Ævarsson skrifar
Íslandsmeistarar Hauka 2025
Íslandsmeistarar Hauka 2025 Vísir/Hulda Margrét

Haukar eru Íslandsmeistarar í Bónus-deild kvenna 2025 ótrúlegan sigur á Njarðvík í framlengdum leik í Ólafssal, lokatölur 92-91.

Leikurinn var mjög jafn í byrjun, eiginlega eins jafn og þeir gerast en Emilie Hessedal setti niður víti á loksekúndum fyrsta leikhluta og jafnaði í 22-22. Brittany Dinksins var þarna strax í byrjun komin í nett villuvandræði með tvær villur en villuvandræði áttu eftir að verða ákveðið þema í leik Njarðvíkur.

Paulina Hersler bjargar boltanumVísir/Hulda Margrét

Haukar skrúfuðu heldur betur upp ákafann í pressuvörninni í öðrum leikhluta en alls náðu þær að þvinga fram tólf tapaða bolta hjá Njarðvík í fyrri hálfleik meðan þær töpuðu aðeins fjórum sjálfar. Njarðvíkingar skoruðu aðeins 14 stig í leikhlutanum en bæði Dinkins og Paulina Hersler voru komnar með þrjár villur fyrir hálfleik.

Staðan í hálfleik 43-36. Emilie Hesseldal byrjaði seinni hálfleikinn á tveimur loftboltum úr þristum og Haukar voru allt í einu komnir tólf stigum yfir og svo sextán þegar Þóra setti sinn fimmta þrist í leiknum, 61-45. Njarðvíkingar lokuðu leikhlutanum aftur á móti af miklum krafti og staðan fyrir lokaleikhlutann 63-54.

Þóra Kristín var mögnuð í kvöld. 25 stig, sex fráköst og sex stoðsendingarVísir/Hulda Margrét

Haukar virtust vera með leikinn nokkurn veginn í hendi sér og leiddu með tólf stigum, 73-61, þegar tæpar sex mínútur voru eftir. Njarðvíkingar neituðu þó að gefast upp og kláruðu leikhlutann með 18-6 áhlaupi.

Haukar fóru svolítið í það að reyna að brenna sem mestum tíma af klukkunni og virtust ætla að innsigla 79-73 sigur með þristi frá Þóru en ótrúlegur þristur frá hinni 17 ára gömlu Huldu Maríu þegar ein sekúnda var eftir á klukkunni þýddi að leikurinn var á leið í framlengingu.

Hulda María var hársbreidd frá því að vera hetja kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Framlengingin var svo algjörlega hnífjöfn og óbærilega spennandi. Um leið og annað liðið setti stórt skot svaraði hitt í sömu mynt og svo koll af kolli. Leikurinn réðst svo eiginlega þegar tæpar þrjár sekúndur voru eftir og Haukar einu stigi yfir.

Njarðvík fór í sókn og boltinn endaði útaf og engin leið að sjá hver ætti boltann. Eftir um það bil fimm mínútna yfirferð í skjánum ákváðu dómarar leiksins að snúa upprunalega dómnum við og dæmdu Njarðvík boltann.

Emilie Hesseldal fór langleiðina með að ná í sigurinn fyrir Njarðvík í framlengingunniVísir/Hulda Margrét

Njarðvíkingum gekk bölvanlega að koma boltanum inn. Höfðu „nægan“ tíma til að finna skot en fundu bara enga opna leikmenn, ekki einu sinni Brittany Dinkins sem opnaðist frekar óvænt. Þess í stað grýtti Emilie Hessedal boltanum inn í teig í áttina að Hersler en of fast og boltinn útaf.

Heldur betur dramatískar lokasekúndur í Ólafssal en Haukar stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar og eru Íslandsmeistarar 2025.

Til hamingju, Haukar!

Innilegur fögnuður í leiksloksVísir/Hulda Margrét

Nánari umfjöllun, viðtöl og fleiri myndir innan skamms.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira