Íslenski boltinn

Aftur­elding lagði ÍA á Akra­nesi og ÍBV hefndi sín

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar.
Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar. Vísir/Anton Brink

Þremur af leikjum kvöldsins í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla er nú lokið. Á Akranesi var Afturelding í heimsókn og fór það svo að gestirnir unnu 1-0 útisigur. Þá hefndi ÍBV fyrir tapið gegn KR á dögunum með frábærum 3-2 sigri í Laugardalnum.

Á Akranesi var Afturelding í heimsókn og þar reyndist nýi maðurinn Benjamin Stokke hetjan. Hann skoraði eina mark leiksins á 61. mínútu. Axel Óskar Andrésson fékk rautt spjald í liði gestanna undir lokin en það kom ekki að sök og Afturelding er komin áfram.

Það er gömul mýta að ef lið mætast tvívegis í röð, annars vegar í deild og hins vegar í bikar, þá sé ómögulegt að vinna báða leikina. Sú mýta raungerðist í Laugardalnum þar sem ÍBV lagði KR nokkrum dögum eftir að tapa 4-1 á sama velli.

Atli Sigurjónsson kom KR yfir á 29. mínútu en Oliver Heiðarsson jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar, staðan 1-1 í hálfleik. Á 64. mínútu kom Hermann Þór Ragnarsson gestunum yfir eftir frábæra skyndisókn.

Varamaðurinn Guðmundur Andri Tryggvason jafnaði metin eftir hornspyrnu en Omar Sowe kom ÍBV yfir á nýjan leik með fínni afgreiðslu á 81. mínútu. Þegar venjulegur leiktími var við það að renna sitt skeið skaut Oliver ÍBV í 8-liða úrslitin eftir vandræðagang í vörn KR. Lokatölur í  Laugardalnum 2-4 og fyrsta tap KR á leiktíðinni staðreynd.

Þá vann Keflavík, sem leikur í Lengjudeildinni, 5-2 sigur á Víking Ólafsvík sem leikur deild neðar. Gestirnir frá Ólafsvík komust óvænt 2-1 yfir í fyrri hálfleik en svo ekki söguna meir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×