Viðskipti innlent

Gömlu höfuð­stöðvar Icelandair verða hjúkrunar­heimili

Árni Sæberg skrifar
Hjúkrunarheimilið verður í byggingunni hér til hægri. Í miðjunni er gamla Flugleiðahótelið, sem nú er rekið undir merkjum Berjaya.
Hjúkrunarheimilið verður í byggingunni hér til hægri. Í miðjunni er gamla Flugleiðahótelið, sem nú er rekið undir merkjum Berjaya. Vísir/Vilhelm

Reitir hafa gengið til samninga við Ríkiseignir um leigu á Nauthólsvegi 50 í Reykjavík undir rekstur hjúkrunarheimilis til næstu tuttugu ára. Fasteignin hýsti áður höfuðstöðvar Icelandair.

Í tilkynningu Reita til Kauphallar segir að fasteignin sé um 6.500 fermetrar að stærð og muni hýsa 87 hjúkrunarrými og tengda starfsemi.

Sagt liður í samfélagslegri ábyrgð

„Fjárfesting Reita í hjúkrunarheimilum og öðrum tengdum innviðum er liður í samfélagslegri ábyrgð félagsins og stuðlar að nauðsynlegri uppbyggingu á hjúkrunarrýmum. Breytt aldursamsetning þjóðar og öldrun kallar á verulega aukningu slíkra rýma til þess að mæta áætlaðri eftirspurn næstu áratugi. Með þátttöku sinni styður félagið við uppbyggingu mikilvægra innviða sem skipta sköpum fyrir velferð og heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar,“ segir í tilkynningu Reita.

Fjárfestingin sé einnig liður í vaxtarstefnu félagsins og styðji við markmið um fjölgun nýrra eignaflokka.

Fjárfesting upp á 3,5 milljarða og hagnaður eykst um 430 milljónir á ári

Í tilkynningu segir að samningurinn leiði til fjárfestingar af hálfu Reita upp á um 3,5 milljarða króna vegna breytinga á umræddri fasteign, sem dreifist yfir næstu 18 mánuði, og verði fjármögnuð úr sjóðum félagsins. 

Reitir áætli að árleg aukning tekna vegna leigusamningsins að framkvæmdum loknum sé um 450 milljónir króna og árleg aukning rekstrarhagnaðar sé um 430 milljónir króna.

Það gerir 8,6 milljarða króna aukningu rekstrarhagnaðar á samningstímanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×