Körfubolti

„Ég var ekki sáttur með sjálfan mig“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hilmar Smári ræddi seinni hálfleiks frammistöðu sína í síðasta leik gegn Tindastóli.
Hilmar Smári ræddi seinni hálfleiks frammistöðu sína í síðasta leik gegn Tindastóli. Hulda Margrét / Skjáskot Stöð 2 Sport

Hilmar Smári Henningsson var ósáttur með sína frammistöðu í seinni hálfleik í síðasta leik og segir Stjörnuna hafa átt skilið tap gegn Tindastóli í úrslitaeinvígi Bónus deildar karla. Hann settist niður með Stefáni Árna Pálssyni og ræddi fjórða leik liðanna sem er framundan í kvöld.

„Ólíkt fyrsta leiknum, sem mér fannst við eiga að vinna, þá fannst mér við ekki eiga skilið að vinna þriðja leikinn. Miðað við hvernig við komum út og hvernig við vorum heilt yfir leikinn. En bara geðveikt að vera kominn aftur í Garðabæinn, í Umhyggjuhöllina á okkar heimavöll, sjá alla stemninguna og nærast á henni“ sagði Hilmar í viðtalinu sem var tekið við hann í gær og má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Hilmar Smári settist niður með Stefáni Árna

Stemningin sem Hilmar talar um og nærist á hefur stóraukist, samhliða árangri liðsins. Stjarnan nýtti sér það og niðurlægði Tindastól í leik tvö í Garðabænum, en hefur tapað báðum útileikjunum og er með bakið upp við vegg.

Hilmar var frábær í fyrri hálfleiknum í síðasta leik á Sauðárkróki, skoraði tuttugu stig, en síðan hægðist verulega á honum í seinni hálfleik og hann bætti aðeins tveimur stigum við á töfluna.

„Þeir gerðu mjög vel og fengu að halda mér meira en venjulega. Greinilega mikil áhersla sett á mig í seinni hálfleik… Ég var ekki sáttur með sjálfan mig eftir seinni hálfleikinn. Ég þarf ekkert endilega að skora en ég þarf að skapa meira, mér fannst ég non-factor í þessum seinni hálfleik“ sagði Hilmar um sína frammistöðu.

Hann viðurkenndi að þreytan væri aðeins farin að segja til sín, eftir langa og stranga úrslitakeppni, en gleðin og gamanið sem fylgir úrslitakeppninni heldur honum gangandi. Að ógleymdu sjúkraþjálfarateyminu sem tjaslar mönnum saman milli leikja.

Vinir og vandamenn Hilmars hafa reynt að hafa af honum miða og hann hefur reynt að hjálpa þeim eftir fremsta megni en uppselt er á leikinn, sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld. Útsending hefst klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×