Enski boltinn

Isak æfir hjá Orra Steini og fé­lögum

Valur Páll Eiríksson skrifar
 Alexander Isak hefur skorað 62 mörk í 109 leikjum fyrir Newcastle og spilaði stórkostlega vel á síðasta tímabili.
Alexander Isak hefur skorað 62 mörk í 109 leikjum fyrir Newcastle og spilaði stórkostlega vel á síðasta tímabili. Serena Taylor/Newcastle United via Getty Images

Sænski framherjinn Alexander Isak hefur fengið hæli hjá fyrrum félagi sínu Real Sociedad á meðan hann neitar að vera með liðsfélögum sínum í Newcastle í Austurlöndum fjær.

Framtíð Isak hefur verið mikið til umræðu í sumar og virðist fátt ætla að koma í veg fyrir brottför hans frá Newcastle United. Hann ferðaðist ekki með liðinu í Asíu í æfinga- og keppnisferð og er fastlega orðaður við Liverpool.

Isak hefur verið orðaður við önnur félög, meðal annars í Sádi-Arabíu, en ef marka má breska fjölmiðla vill hann aðeins ganga í raðir Englandsmeistaranna. Einhverjir miðlar segja Isak þegar hafa náð samkomulagi við Liverpool og aðrir segja að Newcastle og Liverpool séu við að hefja samningsviðræður um kaupverð.

Isak fór ekki með Newcastle til Asíu fyrr í þessum mánuði en liðið tapaði fyrir Arsenal í Singapúr 27. júlí og stjörnuliði kóresku úrvalsdeildarinnar í gær. Næst er leikur við Tottenham Hotspur 3. ágúst áður en liðið heldur heim á leið.

Einhvern veginn þarf Isak að halda sér við og hefur hann fengið hæli hjá fyrrum félagi sínu Real Sociedad. Með Sociedad leikur Orri Steinn Óskarsson, landsliðsfyrirliði Íslands.

Ef marka má breska og spænska miðla æfir Isak þó ekki með liðinu heldur er þar með einkaþjálfara og æfir einn til að halda sér við.

Isak er 25 ára gamall og lék í þrjú ár fyrir Sociedad, frá 2019 til 2022, áður en Newcastle reiddi fram um 63 milljónir punda fyrir framherjann. Hann er dýrasti leikmaður í sögu Newcastle.

Liverpool er sagt þurfa að reiða fram hátt í 120 milljónir punda til að tryggja sér krafta Isak en liðið hefur þegar keypt bæði Hugo Ekitike og Florian Wirtz í framliggjandi stöður fyrir tæplega 180 milljónir.

Newcastle hefur leitað lifandi ljósi að framherja í sumar en sú leit gengið illa. Newcastle vildi til að mynda fá Ekitike en varð ekki erindi sem erfiði. Liðið færði þá augu sín að Slóvenanum Benjamin Sesko hjá RB Leipzig en útlit er fyrir að sá vilji frekar fara til Manchester United.


Tengdar fréttir

Shearer öskureiður: „Þetta er bara fáránlegt“

Alan Shearer er allt annað en sáttur með að félagið hans Newcastle United þurfi mögulega að horfa á eftir sínum besta leikmanni til Englandsmeistara Liverpool. Hann er sérstaklega óhress með skilaboðin sem berast frá félaginu sjálfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×