Erlent

Hættir að fjár­magna þróun mRNA bóluefna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kennedy hefur um margra ára skeið dreift samsæriskenningum um bólusetningar.
Kennedy hefur um margra ára skeið dreift samsæriskenningum um bólusetningar. Getty/Michael M. Santiago

Bandaríska heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að rifta 22 samningum er varða þróun mRNA-bóluefna, sem metnir eru á um 500 milljónir dala.

Um er að ræða tegund bóluefna sem hafa meðal annars verið notuð gegn Covid-19 en meðal þeirra samninga sem verður sagt upp er samningur við Moderna um fjármögnun lokafasa þróunar bóluefnis gegn fuglaflensu.

Þá hefur verið fallið frá ýmsum verkefnum sem voru í burðarliðnum í samstarfi við Pfizer, Sanofi Pasteur og fleiri.

„Við yfirfórum vísindin og hlustuðum á sérfræðingana,“ er haft eftir heilbrigðisráðherranum Robert F. Kennedy Jr. í yfirlýsingu. Segir hann að ákvörðunin hafi verið tekin þar sem umrædd bóluefni hefðu ekki reynst áhrifarík gegn öndunarfærasýkingum á borð við Covid-19 eða inflúensu.

Ekki er vitnað í neinar vísindalegar niðurstöður þessu til stuðnings.

Kennedy segir að áhersla verði lögð á að fjármagna þróun breiðvirkari bóluefni, sem haldi áfram að virka jafnvel þótt veirur taki stökkbreytingum.

Ráðherrann er þekktur efasemdamaður þegar kemur að bóluefnum og hefur meðal annars fyrirskipað nýja rannsókn á tengslum bólusetninga og einhverfu, sem flestir sérfræðingar eru sammála um að séu ekki til staðar.

Þess má geta að Drew Weissman og Katalin Karikó hlutu Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 2023 fyrir rannsóknir sínar og uppgötvanir, sem gerðu þróun mRNA bóluefna gegn Covid-19 mögulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×