Viðskipti innlent

Ólafur Ragnar með rúma milljón meira en næsti maður

Kjartan Kjartansson skrifar
Ólafur Ragnar í ræðupúlti á Hringborði norðurslóða, árlegri ráðstefnu sem hann átti frumkvæði að. Hann hefur ekki lapið dauðann úr skel eftir að hann lét af embætti forseta á sínum tíma.
Ólafur Ragnar í ræðupúlti á Hringborði norðurslóða, árlegri ráðstefnu sem hann átti frumkvæði að. Hann hefur ekki lapið dauðann úr skel eftir að hann lét af embætti forseta á sínum tíma. Vísir/Vilhelm

Rúmri milljón króna munar á tekjum Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, og næsta manns á tekjulista forseta, þingmanna og ráðherra í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins er tekjuhæstur þingmanna.

Ólafur Ragnar var með rúmar 4,7 milljónir króna í mánaðartekjur í fyrra samkvæmt Tekjublaðinu. Á eftir honum kemur Guðni Th. Jóhannesson, eftirmaður hans í embætti, með tæpar 3,7 milljónir króna. Vigdís Finnbogadóttir, forveri Ólafs Ragnars, var með tæpar 3,2 milljónir króna í fyrra samkvæmt listanum.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í dag en rétt er að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2023 sem var greiddur árið 2024.

Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá en í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Þá ber að hafa í huga að inn í tekjunum geta líka verið einskiptisgreiðslur vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.

Verktakagreiðslur flokkast ekki sem útsvarsskyldar tekjur og eru því ekki teknar fyrir í álagningaskrá Ríkisskattstjóra sem Tekjublaðið styðst við.

Í fjórða sæti á listanum er Jens Garðar Helgason, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarforstjóri laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, með rúmar 2,8 milljónir króna í mánaðartekjur. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, er tekjuhæsti ráðherrann með tæpar 2,8 milljónir króna.

https://www.visir.is/g/20242610178d/olafur-ragnar-skakar-vigdisi-og-gudna

Fjórir ráðherrar í ríkisstjórn eru ekki á tekjulistanum. Núverandi ríkisstjórn tók ekki við fyrr en í desember í fyrra en listinn byggir á tekjum síðasta árs.

Laun núverandi ráðherra:

  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra. 2,1 milljón króna.
  • Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra. 2,1 milljón króna.
  • Inga Sæland, félagsmálaráðherra. 2,1 milljón króna.
  • Logi Már Einarsson, menntamálaráðherra. 1,9 milljónir króna.
  • Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra. 1,6 milljónir króna.
  • Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. 1,6 milljónir króna.

Fyrrverandi ráðherrar eru ofar á listanum. Hæstur þeirra er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, í sjöunda sæti með rúmar 2,6 milljónir króna. Rétt á eftir honum er Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra, með 2,6 milljónir.

Á eftir Jens Garðari er Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tekjuhæsti þingmaðurinn með 2,7 milljónir króna og í sjötta sæti listans. Hann var formaður borgarráðs þar til hann var kjörinn á þing.

Bjarni Benediktsson var tekjuhæstur formanna stjórnmálaflokkanna í fyrra. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, kom á eftir honum með 2,4 milljónir króna rúmar. Guðrún Hafsteinsdóttir, sem tók við af Bjarna sem formaður Sjálfstæðisflokksins í ár, var með tæpar 2,3 milljónir króna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins var með rúmar 2,1 milljónir króna. Lestina reka svo formenn núverandi ríkisstjórnarflokka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×