Innherji

Kald­bakur hagnast um 2,6 milljarða en segir „krefjandi að­stæður“ fram­undan

Hörður Ægisson skrifar
Eiríkur S. Jóhannsson er forstjóri Kaldbaks. 
Eiríkur S. Jóhannsson er forstjóri Kaldbaks. 

Félagið Kaldbakur, sem heldur utan um fjárfestingareignir sem áður voru í eigu Samherja, skilaði um 2,3 milljarða króna hagnaði í fyrra, talsvert minna en árið áður. Forstjóri Kaldbaks segir „krefjandi aðstæður“ framundan hjá fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn og þess sjáist nú þegar merki í samdrætti í pöntunum þeirra.

Á aðalfundi Kaldbaks fimmtudaginn 21. ágúst síðastliðinn var ársreikningur félagsins samþykktur, sem er meðal annars leiðandi fjárfestir í Högum og Sjóvá, en eigið fé þess var um 36 milljarðar króna í árslok 2024. Hagnaður samstæðunnar dróst nokkuð saman milli ára – úr 9,5 milljörðum í 2,3 milljarða – og skýrist einkum af því að félagið hafði innleyst um sjö milljarða söluhagnað af einum sínum á árinu 2023.

Á liðnu ári jukust skráðar eignir félagsins um tæplega þrjá milljarða króna á árinu, en þar sem reikningsskil félagsins byggja á hlutdeildaraðferð, er þessi óinnleysti hagnaður ekki færður til tekna í rekstri liðins árs. Hluthafar samþykktu arðgreiðslu til hluthafa að fjárhæð 276 milljónir króna.

Eignarhaldsfélagið Steinn, sem er í eigu í eigu Þorsteins Má Baldvinssonar og Helgu S. Guðmundsdóttur, er stærsti einstaki hluthafi Kaldbaks með liðlega 44 prósenta hlut.

Framundan eru krefjandi aðstæður, sérstaklega í þeim geirum sem tengjast þjónustu við sjávarútveginn. Við sjáum talsvert fall í pöntunum sem nú þegar er farið að hafa áhrif á rekstur þessara fyrirtækja.

Á aðalfundinum var stjórn félagsins endurkjörin óbreytt en Steingrímur H. Pétursson er formaður og Dagný Kristjánsdóttir varaformaður. Aðrir stjórnarmenn eru þau Katla Þorsteinsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Björk Þórarinsdóttir.

Kaldbakur skilgreinir sig sem alþjóðlegt fjárfestingafélag, með áherslu á langtímaverðmætasköpun í gegnum virkt eignarhald, en 40 prósent af öllum eignum þess eru erlendar fjárfestingar. Þar munar mestu um annars vegar eignarhluti í REM Offshore Holding og Optimar í Noregi og hins vegar Bergfrost í Færeyjum.

Stærstu skráðu innlendu eignir Kaldbaks eru ríflega átta prósenta hlutur í Högum og nærri 16 prósenta eign í Sjóvá – í gegnum félagið Hrólfssker – og fulltrúar þeirra fara jafnframt með stjórnarformennsku í þessum fyrirtækjum. Helstu óskráðu eignir Kaldbaks á Íslandi eru Jarðboranir og Slippurinn á Akureyri.

Fjárhagsstaða Kaldbaks er afar sterk en félagið var með handbært fé upp á 6,7 milljarða um síðustu áramót, sem jafngildir nærri tuttugu prósentum af öllum eignum fjárfestingafélagsins.

Þorsteinn Már Baldvinsson og fyrrverandi eiginkona hans, Helga S. Guðmundsdóttir, eru stærstu hluthafar Kaldbaks í gegnum Eignarhaldsfélagið Steinn. Vísir/Vilhelm

Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Kaldbaks, segir liðið ár hafa verið gott þar sem samstarf við félögin í eignasafninu hafi skilað góðum árangri. Meginmarkmið Kaldbaks sé að vera traustur og virkur hluthafi sem styður við rekstur og vöxt fyrirtækja í eignasafninu.

Hann bætir hins vegar við að „krefjandi aðstæður“ séu núna framundan, einkum í þeim geirum sem tengjast þjónustu við sjávarútveginn.

„Við sjáum talsvert fall í pöntunum sem nú þegar er farið að hafa áhrif á rekstur þessara fyrirtækja. Nauðsynlegt verður að efla samvinnu milli viðkomandi fyrirtækja til að mæta þeim áskorunum. Samhliða þessu munum við sem fyrr vinna áfram með eignasafn okkar – bæði með nýjum fjárfestingum sem og sölu eigna þegar það á við.“


Tengdar fréttir

Arctic Thera­peutics sækir fjóra milljarða frá inn­lendum og er­lendum fjár­festum

Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics hefur klárað jafnvirði um fjögurra milljarða króna hlutafjáraukningu frá breiðum hópi innlendra og erlendra fjárfesta, meðal annars fjárfestingafélagi Samherja-fjölskyldunnar og norrænu rannsóknarsamsteypunni Sanos Group. Fjármögnunin mun tryggja að félagið geti hafið klínískar rannsóknir á lyfjum við heilabilun og húðbólgusjúkdómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×