Fótbolti

Fundu efnið sem felldi fót­bolta­stelpurnar í öllu gúmmíi á gervi­grasi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir lék í leiknum fræga þar sem átta leikmenn féllu á lyfjaprófi.
Sædís Rún Heiðarsdóttir lék í leiknum fræga þar sem átta leikmenn féllu á lyfjaprófi. Getty/Marius Simensen

Rannsókn tengdu óvenjulegu „lyfjahneyksli“ í norska kvennafótboltanum er nú lokið og hún sýnir vel hætturnar sem leynast í kurluðu dekkjagúmmí á gervigrasvöllum.

Málið hófst þegar átta leikmenn féllu á lyfjaprófi eftir leik Lilleström og Vålerenga í norsku kvennadeildinni. Þetta kom öllum á óvart ekki síst þessum leikmönnum sem voru þarna sakaðir um ólöglega lyfjanotkun.

Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir tók þátt í þessum leik en hún spilar með liði Vålerenga.

Fjöldi leikmannanna sem féllu á lyfjaprófinu gaf strax fyrirheit um að eitthvað óvenjulegt væri í gangi.

Farið var í að finna út hvaðan efnið kom með því að rannsaka allt í kringum leikinn, allt frá matnum sem þær borðuðu til þeirra efna sem þær komust í snertingu við.

Niðurstaðan var að þær höfðu fengið ólöglega efnið í sig í gegnum kurlaða dekkjagúmmíið á gervigrasvellinum.

Leikurinn fór fram í lokaðri íþróttahöll Lilleström og eftir að þetta varð ljóst þá bannaði norska knattspyrnusambandið alla æfingar og leiki í henni.

Norska knattspyrnusambandið segir nú frá rannsókn á fjölmörgum gervigrasvöllum í Noregi. Sýni voru tekin úr 47 gervigrasvöllum út um allan Noreg. Þau sýna og sanna að efnið sem felldi fótboltastelpurnar má finna í öllu dekkjagúmmíi á öllum þessum gervigrasvöllum.

Munurinn virðist vera sá að hættan liggi aðallega í því að leikurinn fer fram innanhúss en ekki utanhúss.

Frekari rannsóknir munu fara fram á þeim aðstæðum og hvort loftflæði, loftræsting, raki og annað hafi áhrif á það af hverju efni eins og þetta smitist frekar í keppendur í innanhússhöllum en þegar spilað er á gervigrasi utanhúss.

Norska knattspyrnusambandið mælir áfram með því að leikir fari frekar fram utanhúss en innanhúss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×